Erlent

Vísa á bug orðrómum um að Ólympíuleikum verði aflýst vegna veirunnar

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Ólympíuleikarnir 2020 verða haldnir í Tókýó, höfuðborg Japans. Þegar þetta er skrifað eru 17 staðfest tilfelli um Wuhan-veiruna í landinu.
Ólympíuleikarnir 2020 verða haldnir í Tókýó, höfuðborg Japans. Þegar þetta er skrifað eru 17 staðfest tilfelli um Wuhan-veiruna í landinu. Vísir/AP

Skipuleggjendur Sumarólympíuleikanna 2020, sem fara fram í Tókýó í Japan í sumar, hafa séð sig knúna til þess að hafna opinberlega orðrómum um að útbreiðsla Wuhan-kórónaveirunnar í Asíu, og einkum og sér í lagi í nágrannaríkinu Kína, gæti orðið til þess að leikunum yrði aflýst. Minna en sex mánuðir eru í að leikarnir eigi að fara fram.

Í heildina hafa verið staðfest 12 þúsund tilfelli af veirunni, og þar af 17 í Japan. Alls hafa 259 látist af völdum veirunnar, en enginn utan Kína.

Orðrómar um að leikunum kynni að vera aflýst hlutu byr undir báða vængi eftir að þýski fjölmiðillinn Deutsche Presse-Agentur birti umfjöllun um viðræður Alþjóðaólympíunefndarinnar (IOC) og Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO), hvers niðurstaða hafi verið að útbreiðsla veirunnar „gæti haft alvarleg áhrif á leikana.“

Japanska fréttaveitan Buzztap! fjallaði í kjölfarið um málið, en það varð til þess að meira en 50 þúsund tíst undir myllumerkinu „Ólympíuleikunum í Tókýó aflýst“ birtust á Twitter.

Nú hafa skipuleggjendur leikanna hins vegar gefið út að það sé ekki í umræðunni að aflýsa leikunum að svo stöddu.

„Við munum vinna náið með IOC og öðrum aðilum málsins til þess að gera allar mögulegar varúðarráðstafanir þegar þörf krefur.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×