Viðskipti innlent

Bjóða út breikkun hringvegar milli Selfoss og Hveragerðis

Kristján Már Unnarsson skrifar
Byrjað verður á kaflanum næst Selfossi. Ingólfsfjall til vinstri og Ölfusá til hægri.
Byrjað verður á kaflanum næst Selfossi. Ingólfsfjall til vinstri og Ölfusá til hægri. Mynd/Vegagerðin.

Vegagerðin hefur boðið út annan áfanga í breikkun hringvegarins um Ölfus milli Selfoss og Hveragerðis. Þetta stærsta útboðsverk Vegagerðarinnar í ár er auglýst á evrópska efnahagssvæðinu en tilboðsfrestur er einn mánuður, til 3. mars 2020.

Samgönguáætlun gerir ráð fyrir 5,5 milljörðum króna í þetta 7,1 kílómetra verk en því á öllu að vera lokið í september árið 2023.  Þegar framkvæmdum lýkur verður kominn 2+1 vegur með aðskildum akstursstefnum milli þessara tveggja fjölmennustu bæja Suðurlands.

Í útboðslýsingu segir að auk nýbyggingar og endurgerðar hringvegarins felist í verkinu gerð nýrra vegamóta við Kirkjuferjuveg og Hvammsveg eystri, gerð hringtorgs við Biskupstungnabraut, nýbyggingu Ölfusvegar, breytingu Þórustaðavegar og Biskupstungnabrautar sem og gerð heimreiða. Hluti verksins er bygging fimm steyptra brúa og undirganga ásamt tveggja reiðganga úr stáli.

Séð austur í átt til Ingólfsfjalls og Kögunarhóls.Mynd/Vegagerðin.

Einnig eru innifaldar breytingar á lagnakerfum veitufyrirtækja sem og nýlagnir og landmótun auk annarra þátta sem nauðsynlegir eru til að ljúka verkinu. 

Byrjað verður sunnan Ingólfsfjalls, á gerð hringtorgs norðan Selfoss, á gatnamótum þjóðvegarins í átt að Sogsbrú. Verktakarnir munu svo færa sig vestar en verkinu verður skipt upp í sex verkhluta, og þeir teknir í notkun í áföngum á tímabilinu. 

Fyrsti áfanginn, tveggja og hálfs kílómetra kafli austan Hveragerðis, milli Varmár og Gljúfurholtsár, ásamt tengivegum, var unninn á síðasta ári og opnaður umferð í haust. 

Sýnt var með myndrænni grafík Vegagerðarinnar hvernig vegurinn kemur til með að líta út í frétt Stöðvar 2 í síðasta mánuði, sem sjá má hér:


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×