Innlent

Lét höggin dynja á tengdasyninum með hafnaboltakylfu

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Dómurinn var kveðinn upp í Héraðsdómi Reykjavíkur í gær.
Dómurinn var kveðinn upp í Héraðsdómi Reykjavíkur í gær. Vísir/Hanna

Karlmaður á sjötugsaldri hefur verið dæmdur í átta mánaða fangelsi fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás á yngri karlmann í nóvember 2018. Samkvæmt heimildum Vísis réðst karlmaðurinn á tengdason sinn. Var maðurinn dæmdur fyrir að hafa slegið tengdasoninn mörgum sinnum með hafnaboltakylfu í höfuð og búk.

Tengdasonurinn hlaut fjögurra sentimetra langan skurð vinstra megin á hnakka, mar í andliti hægra megin og lítilsháttar blæðingu á bak við hljóðhimnu hægra eyra. Mar á hálsi, brjóstkassa og baki, mar á vinstri hönd og úlnlið. Mikla bólgu á vinstri ökkla, mar á vinstra læri og grunnt sár á sköflungi hægri fótar.

Tengdafaðirinn játaði sök en hann á ekki sakaferil að baki svo kunnugt sé. Í niðurstöðu Héraðsdóms Reykjavíkur segir að tilviljun hafi ráðið því að ekki var um verulegt varanlegt líkamstjón að ræða. Að því virtu að tengdafaðirinn játaði brot sitt greiðlega og viðurkenndi skaðabótaskyldu var refsing hans ákveðin skilorðsbundið fangelsi í átta mánuði.

Krafist var tveggja milljóna króna í miskabætur. Mat dómarinn 600 þúsund krónur sem hæfilegar miskabætur en auk þess þarf hinn dæmdi að greiða lækniskostnað, sjúkranudd og fyrir viðgerð á íbúð tengdasonarins, samanlagt 540 þúsund krónur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×