Innlent

Aldur vélarinnar hafi ekki verið örlagavaldur

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair.
Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair. vísir/vilhelm

Óhapp gærdagsins ætti ekki að hafa teljandi áhrif á flugáætlun Icelandair að sögn forstjóra félagsins. Þrátt fyrir að aldur vélarinnar fylli tvo tugi ætlar hann að aldurinn hafi ekki örlagavaldur. Vélin hvílir enn á flugbrautinni en gert er ráð fyrir að hún verði flutt um helgina.

Boeing 757 flugvél Icelandair TF-FIA hlekktist á við lendingu á Keflavíkurflugvelli í gær. Hjólabúnaður vélarinnar brotnaði sem varð til þess að hún lagðist á annan hreyfilinn. Engan sakaði líkamlega og var farþegum boðin áfallahjálp.

Vélin flýgur þó ekki langt á næstunni. Bogi Nils Bogason forstjóri Icelandair segist þó ekki vænta þess að það setja flugáætlun félagsins úr skorðum. „Miðað við óbreyttar aðstæður mun leiðarkerfið í raun vera með eðlilegum hætti þrátt fyrir að þessi vél verði ekki notuð á næstu vikum“ segir Bogi.

TF-FIA var smíðuð um aldamótin og verður því tvítug í ár. Bogi ætlar hins vegar að aldur vélarinnar hafi ekki verið örlagavaldur í gær, 757 vélarinnar séu byggðar til að endast lengur „Miðað við þær upplýsingar sem við höfum var það lendingarbúnaður sem gaf sig skömmu eftir lendingu. Í ölllum flugvélum er skipt um lendingarbúnað á nokkurra ára fresti. Miðað við þær upplýsingar sem við höfum hefur atvikið ekkert með aldur vélarinnar að segja,“ segir Bogi.

Þrátt fyrir að vélin liggi ennþá á flugbrautinni hefur hún ekki haft nein áhrif á áætlunarflug um völlinn samkvæmt upplýsingum frá Isavia. Önnur flugbraut sé opin.

Vettvangsrannsókn rannsóknarnefndar samgönguslysa stendur enn yfir, sem verður ekki utandyra til frambúðar. „Vélin verður væntanlega flutt inn í flugskýli um helgina. Þar mun rannsóknarnefndin rannsaka vélina,“segir Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair.


Tengdar fréttir

„Lykilatriði að enginn slasaðist“

Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, segir það fyrir öllu að engin slys hafi orðið á fólki þegar lendingarbúnaður flugvélar félagsins brotnaði skömmu eftir lendingu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×