Lífið

Reiður og var að reyna að skaða sig

Sylvía Rut Sigfúsdóttir skrifar
Í þáttunum Trans börn er fjórum íslenskum fjölskyldum fylgt eftir yfir tveggja ára tímabil.
Í þáttunum Trans börn er fjórum íslenskum fjölskyldum fylgt eftir yfir tveggja ára tímabil. Mynd/Stöð2

„Ég hef alltaf þekkt sjálfa mig sem stelpu, mér finnst að ég hafi aldrei verið strákur einhvern veginn. Það er erfitt að útskýra það, en mér hefur alltaf liðið eins og stelpa,“ segir Gabríella María, eitt barnanna sem kemur fram í heimildarþáttunum Trans börn á Stöð 2.

Í kvöld verður sýndur fyrsti þátturinn í þessari vönduðu þáttaröð og verður hann í opinni dagskrá á Stöð, strax á eftir fréttum. Aðeins fyrsti þátturinn af þremur er í opinni dagskrá, en stjórnendum Stöðvar 2 fannst að þessi þáttur ætti einfaldlega erindi við sem flesta. Í fyrsta þætti segja Alex Grétar og Gabríela María sögu sína og rætt er við fjölskyldur þeirra. 

Í þáttunum er fjórum íslenskum fjölskyldum fylgt eftir yfir tveggja ára tímabil. Allar fjölskyldurnar eiga það sameiginlegt að innan þeirra er barn sem upplifir sig í öðru kyni en því sem þeim var úthlutað við fæðingu. Sigrún Ósk Kristjánsdóttir umsjónarkona þáttanna sagði í samtali við Vísi í vikunni að fjölskyldurnar opni sig upp á gátt í þáttunum og deili bæði því góða og því slæma.

Sjá einnig: Gefur innsýn í líf fjögurra íslenskra trans barna

Klippa: Reiður og var að reyna að skaða sjálfan sig

Trans teymið lagt niður

Fram kemur í fyrsta þættinum að börnin sem rætt er við hafa fengið aðstoð hjá sérstöku teymi sem stofnað var utan um trans börn á BUGL, barna- og unglingageðdeild Landspítalans. Eins og fjallað hefur verið um í fjölmiðlum síðustu daga var foreldrum trans barna tilkynnt í janúar að það væri búið að leggja teymið niður og þjónustan nú aðeins í boði á göngudeild. Guðrún B. Guðmundsdóttir, yfirlæknir BUGL, sagði í kvöldfréttum Stöðvar 2 að mannskap og fjármagn vanti til að halda uppi transteyminu.

„Hann var bara reiður og var að reyna að skaða sjálfan sig,“ segir móðir Alex Grétars í þætti kvöldsins en sonur hennar var eitt barnanna sem fékk mikla hjálp frá BUGL teyminu.

Björn Hjálmarsson barna- og unglingageðlæknir á BUGL segir í þættinum Trans börn að reiknað var með tveimur til þremur tilvísunum á ári til teymisins, en fjöldinn hefur fimmfaldast síðustu ár og núna á síðasta ári voru tilvísanirnar 26.  Foreldrar transbarna telja þetta lífshættulega ákvörðun og benda á að í lögum um kynrænt sjálfræði sé kveðið á um þverfaglegt transteymi.

Í mun meiri hættu en önnur börn

Transteymið gerir börnunum til dæmis kleift að komast á lyf vegna hormónastarfsemi, veitir sálfræðimeðferð og heldur utan um langt og strangt ferlið sem börnin ganga í gegnum. Margir foreldrar trans barna hafa reynslu af því að sitja yfir börnum sínum vegna þunglyndis og sjálfsvígshættu og þjónusta trans teymisins því mikilvæg.

„Trans krakkar eru í mun meiri hættu en önnur ungmenni á að upplifa mikla vanlíðan. Það er miklu líklegra að trans barn skaði sig eða sé með sjálfsvígshugsanir,“ segir Sigríður Birna Valsdóttir í þætti kvöldsins en hún er ráðgjafi hjá Samtökunum 78.  Hún segir að trans börn verði oft kvíðnari eftir viðtöl í heilbrigðiskerfinu vegna þekkingarleysis heilbrigðisstarfsfólks. Það verði að setja peninga í málaflokkinn svo hægt sé að reka sérstakt transteymi á BUGL.

Trans börn er í opinni dagskrá á Stöð 2 klukkan 19.10 í kvöld. Framleiðandi þáttanna er Sveinn Benedikt Rögnvaldsson, Sigrún Ósk Kristjánsdóttir sér um umsjón og klippingu annast Fannar Scheving Edwardsson. Friðrik Friðriksson sá um myndatöku.


Tengdar fréttir

Vantar mannskap til að halda uppi transteymi

Transteymi BUGL hefur verið lagt niður vegna manneklu en samkvæmt lögum skal þverfaglegt teymi sinna börnunum. Hvorki fjármagn né starfsfólk fylgdi lagasetningunni. Móðir transdrengs segir heilbrigðisyfirvöld þurfa að hysja upp um sig.

Foreldrar transbarna í öngum sínum

Transteymi BUGL hefur verið lagt niður og þjónustan verður nú í boði á göngudeild. Mæður transbarna segja þetta lífshættulega ákvörðun og benda á að í lögum um kynrænt sjálfræði sé kveðið á um þverfaglegt transteymi.

Þekkingarleysi í heilbrigðiskerfinu kemur niður á trans börnum

Ráðgjafi hjá Samtökunum 78 segir að trans börn verði oft kvíðnari eftir viðtöl í heilbrigðiskerfinu vegna þekkingarleysis heilbrigðisstarfsfólks. Það verði að setja peninga í málaflokkinn svo hægt sé að reka sérstakt transteymi á BUGL. Þjónustan sé gríðarlega mikilvæg fyrir börnin.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.