Innlent

Heim­sækja þingið vegna endur­skoðunar siða­reglna

Atli Ísleifsson skrifar
Alþingishúsið sem stendur við Austurvöll í Reykjavík.
Alþingishúsið sem stendur við Austurvöll í Reykjavík. vísir/vilhelm

Tveir sérfræðingar frá lýðræðis- og mannréttindaskrifstofu Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu (ÖSE) munu heimsækja Alþingi eftir helgi í tengslum við vinnu sem nú stendur yfir við endurskoðun siðareglna fyrir alþingismenn.

Í tilkynningu frá skrifstofu þingsins segir að drög að breyttum siðareglum hafi farið til umsagnar siðanefndar Alþingis og lýðræðis- og mannréttindaskrifstofu ÖSE í nóvember síðastliðnum.

„Í kjölfar þess sendi ÖSE bréf í desember þar sem vakin var athygli á reynslu og sérþekkingu stofnunarinnar á málum sem varða siðferðileg viðmið fyrir þjóðkjörna fulltrúa. Ýmiss konar aðstoð var boðin, m.a. að fá til Íslands sérfræðinga ÖSE til að ræða við þingmenn og skrifstofu Alþingis um endurskoðunina á siðareglum fyrir alþingismenn.

Úr varð að tveir sérfræðingar, Marcin Walecki, forstöðumaður skrifstofu lýðræðisvæðingar, og Jacopo Leone, sérfræðingur á sviði lýðræðisstjórnunar, koma til landsins og heimsækja þingið 3. og 4. febrúar. Þeir munu hitta og eiga fundi m.a. með forseta Alþingis, stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, forsætisnefnd og lagaskrifstofu þingsins, formönnum þingflokka og ráðgefandi siðanefnd Alþingis,“ segir í tilkynningunni.


Tengdar fréttir

Siðareglur til endurskoðunar

Forseti Alþingis undirbýr nú endurskoðun siðareglna fyrir alþingismenn. Málið á dagskrá sumarfundar forsætisnefndar. Endurskoða á framkvæmd og umgjörð reglnanna fremur en hátternisreglurnar sjálfar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×