Innlent

Segir að í lok janúarmánaðar verði kolefnisjöfnun Stjórnarráðsins fyrir árið 2019 lokið

Elísabet Inga Sigurðardóttir skrifar

Forsætisráðherra segir að í lok janúarmánaðar verði kolefnisjöfnun Stjórnarráðsins fyrir árið 2019 lokið. Stofnanir skulu aftur á móti setja sér markmið um kolefnishlutleysi og draga úr losun á árinu 2021.

Í fréttum okkar í gær kom fram að margfalt fleiri fyrirtæki og einstaklingar kolefnisjafni ferðir sínar en samkvæmt upplýsingum frá Kolviði og Votlendissjóði hafa ríkisstofnanir ekki verið að kolefnisjafna ferðir starfsmanna, sem teljast nokkuð algengar.

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, segir að í lok janúarmánaðar verði kolefnisjöfnun Stjórnarráðsins fyrir árið 2019 lokið.

„Það er ákvörðun sem byggir á loftslagsstefnu stjórnarráðsins sem bæði felst í því að við erum að draga úr losun, t.d. með því að breyta því sem er í boði hér í mötuneyti Stjórnarráðsins, fækka flugferðum, breyta samgöngumáta til og frá vinnu og líka meðþví að kolefnisjafna,“ sagði Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra.

Hvert og eitt ráðuneyti mun þá jafna sína heildarlosun yfir árið í stað þess að kolefnisjafna hverja og eina flugferð.

„Hvert og eitt ráðuneyti sem kolefnisjafnar sína heildarlosun. Við gerum það upp í lok árs þannig aðég vænti þess að öll ráðuneyti detti inn með sína kolefnisjöfnun í þessum fyrsta mánuði 2020,“ sagði Katrín.

Stofnanir skulu aftur á móti setja sér markmið um kolefnishlutleysi og draga úr losun á árinu 2021.

„Ég veit að stofnanir eru mislangt komnar í þessu verkefni en við væntum þess að allir verði komnir á sömu blaðsíðu 2021,“ sagði Katrín.

Nú spyr sig einhver: Af hverju 2021? Af hverju ekki núna?

„Þessi stefna komst í gagnið á þessu ári þannig við erum að innleiða hana á tveimur árum. Hún var gefin út 2019 og við gáfum okkur þennan tíma. Ég held að þetta muni skipta verulegu málið því eins og hefur komið fram þá er ríkið að losa mikið bæði í gegnum ferðir og aðra hluti og það skiptir máli að við séum til fyrirmyndar í þessum málum,“ sagði Katrín.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×