Körfubolti

Nýjustu keppni íslenska körfuboltans hefur verið aflýst

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Hlynur Bæringsson og Jakob Sigurðarson í baráttunni í leik KR og Stjörnunnar í Domino´s deild karla í fyrra.
Hlynur Bæringsson og Jakob Sigurðarson í baráttunni í leik KR og Stjörnunnar í Domino´s deild karla í fyrra. Vísir/Bára

Mótanefnd Körfuknattleikssambands Íslands hefur tekið þá erfiðu ákvörðun að aflýsa deildarbikarnum sem hefjast átti 23. ágúst næstkomandi. Þetta kemur fram í frétt á heimasíðu sambandsins.

Heilbrigðisyfirvöld hafa opnað á þann möguleika að æfingar og keppni liðsíþrótta fullorðinna geti hafist að nýju, að undangengnum ströngum skilyrðum. Talsverð vinna hefur farið í að skoða hvaða skilyrði þurfa að gilda um opinbera keppni innanhúss á vegum sérsambands við núverandi aðstæður og en líklegt má telja að þær ráðstafanir sem grípa þurfi til myndu vera mjög íþyngjandi fyrir flest félög.

Mótanefnd taldi ekki ástæðu til að leggja þær kvaðir á félögin í undirbúningsmóti fyrir keppnistímabilið, þar sem því hefði fylgt talsvert álag á sjálfboðaliða.

Mörgum spurningum er enn ósvarað, en unnið verður að því áfram að skýra þau mál og undirbúa mögulegt regluverk komi til þess að hefja þurfi keppni í Íslandsmóti við sambærilegar takmarkanir heilbrigðisyfirvalda og nú eru í gildi.

Áhersla KKÍ verður að móta þær reglur sem munu þurfa að gilda um æfingar körfuboltaliða innanhúss, svo öll lið geti hafið æfingar sem allra fyrst. Við munum kynna þær ráðstafanir fyrir aðildarfélögum KKÍ um leið og þær verða tilbúnar.

KKÍ kynnti deildarbikarinn í júní en þetta var glæný keppni sem fara átti fram áður en Íslandmótið hefst og á milli sextán bestu liða tímabilsins á undan. Deildarbikarnum var skipt í neðri og efri hluta og áttu úrslitaleikirnir að fara fram 12. september næstkomandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×