Erlent

Vopnahlé tekur gildi í Austur-Úkraínu

Kjartan Kjartansson skrifar
Zelenskíj, forseti Úkraínu, fylgdi Simonettu Sommaruga, forseta Sviss, um Donetsk og Luhansk í Austur-Úkraínu í síðustu viku.
Zelenskíj, forseti Úkraínu, fylgdi Simonettu Sommaruga, forseta Sviss, um Donetsk og Luhansk í Austur-Úkraínu í síðustu viku. Vísir/EPA

Vonir eru bundnar við að algert vopnahlé sem tók gildi í dag geti bundið enda á hernaðarátök í austanverðri Úkraínu. Um 13.000 manns hafa fallið í átökum úkraínskra stjórnarhersins og uppreisnarmanna sem eru hliðhollir Rússlandi frá upphafi stríðsins árið 2014.

Samninganefndir Úkraínu, Rússlands og Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu (ÖSE) sömdu um vopnahléið í síðustu viku. Það tók gildi eina mínútu yfir miðnætti í nótt og nýtur stuðnings bæði Vladímírs Pútín Rússlandsforseta og Volodýmýrs Zelenskíj, forseta Úkraínu, að sögn Reuters-fréttastofunnar.

Uppreisnin í austanverðri Úkraínu hófst um sama leyti og Rússar innlimuðu Krímskaga sem tilheyrir Úkraínu árið 2014. Rússnesk stjórnvöld hafa síðan stutt uppreisnarmennina. Meiriháttar bardögum lauk með vopnahléi sem samið var um í Hvíta-Rússlandi árið 2015 en óbreyttir borgarar, úkraínskir hermenn og uppreisnarmenn hafa fallið reglulega í skærum síðan.

Volodýmýr Kravtsjenkó, yfirmaður herafla Úkraínu, segir að ástandið nú sé „stöðugt og undir stjórn“.

„Við erum að tala um möguleika á raunverulegu vopnahlé beggja aðila,“ segir hann.

Fréttin hefur verið uppfærð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×