Fótbolti

Aron Elís og fé­lagar í góðum málum eftir fyrri leikinn

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Aron Elís í leik með OB gegn Randers.
Aron Elís í leik með OB gegn Randers. Lars Ronbog/Getty Images

OB er komið með annan fótinn í Evrópudeildina á næstu leiktíð eftir frábæran 3-1 sigur á AC Horsens í dag. 

Danska úrvalsdeildin í fótbolta er töluvert frábrugðin þeirri íslensku að því leyti að öll lið fara í umspil að einhverju tagi.  Það er umspil um hvaða lið verður meistari - þar sem Mikael Anderson og félagar í Midtjylland lönduðu sigri. Það er umspil þar sem ákveðið er hvaða lið falla og að lokum er umspil um hvaða lið komast í Evrópukeppni.

Aron Elís Þrándarson og samherjar hans í OB unnu AC Horsens 3-1 í fyrri leik liðanna í undanúrslitum umspilsins um sæti í forkeppni Evrópudeildarinnar á næsta tímabili. Max Fenger hafði komið OB yfir þegar Aron Elís kom inn af varamannabekknum á 37. mínútu fyrir Jens Jakob Thomasen.

Horsens jafnaði metin á 63. mínútu en tvö mörk frá Sander Svendsen og Mikkel Hyllegaard á 78. og 86. mínútu tryggðu OB mikilvægan sigur. Liðið er því með ágætis forystu fyrir síðari leik liðanna sem fram fer á sunnudaginn kemur.

Liðið sem vinnur rimmuna mætir liðinu sem endar í 3. sæti í deildinni og sigurvegarinn þar fær sæti í forkeppni Evrópudeildarinnar á næstu leiktíð. Ekkert það flókið eftir allt saman.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×