Viðskipti innlent

Ferðamenn vilja öryggi og upplýsingar

Sylvía Hall skrifar
Framkvæmdastjóri sölu- og þjónustusviðs Icelandair segir flesta ferðamenn koma frá Belgíu, Hollandi, Skandinavíu og Þýskalandi eins og er. 
Framkvæmdastjóri sölu- og þjónustusviðs Icelandair segir flesta ferðamenn koma frá Belgíu, Hollandi, Skandinavíu og Þýskalandi eins og er.  Vísir/Vilhelm

Birna Ósk Einarsdóttir, framkvæmdastjóri sölu- og þjónustusviðs Icelandair, segir félagið hafa þurft að endurhugsa starfsemi sína frá grunni eftir að kórónuveirufaraldurinn hófst. Það sé lærdómsríkt fyrir 83 ára fyrirtæki að ganga í gegnum slíkt ástand en félagið þurfi að laga sig að aðstæðum hverju sinni.

Hún segir ástandið síbreytilegt en einhver ferðahugur sé vissulega kominn í fólk. Þegar ljóst var að ferðalög milli landa yrðu minni fór Icelandair að fylgjast með ástandinu og kanna hvort og þá hvert fólk vildi ferðast.

„Þessar tölur hrundu, bæði þegar við spurðum Evrópumenn hvort þeir vildu fara til Norður-Ameríku og öfugt. Í mars og apríl þá fór það allt niður í botn og það var eins og enginn ætlaði að fara út úr húsinu sínu, eins og auðvitað kom í ljós. Það er aðeins byrjað að glæðast,“ sagði Birna í Bítinu í morgun.

Hún segir það mjög bundið við ástandið í hverju landi hvort fólk sé tilbúið að ferðast. Ef daglegt líf er komið nær fyrra horfi er líklegra að fólk vilji ferðast. Fólk taki þó aðra hluti til skoðunar en áður og því eru ekki sömu áfangastaðir á meðal þeirra vinsælustu.

„Núna rannsakar ferðamaðurinn miklu meira áður en hann fer af stað og áður en hann tekur ákvarðanir. Hann vill vita miklu meira um hvert skref ferðarinnar en áður. Þetta er ekki lengur að stökkva upp í vél.“

Öryggi og upplýsingar skipta mestu máli 

Að sögn Birnu var gerð könnun þar sem þátttakendur voru spurðir hvaða áfangastaðir heilluðu mest. Bæði í Bandaríkjunum og í Evrópu var Ísland ofarlega á blaði og að meðaltali í 3. sæti yfir mest spennandi áfangastaði.

Hún segir marga þætti spilar þar inn í en einna helst öryggi og upplýsingar. Einnig skipti það ferðamenn máli hvernig innviðir landsins eru, hvort heilbrigðiskerfið sé traust og hvernig hefur gengið að ná tökum á útbreiðslu kórónuveirunnar.

Þá telur hún skimanir á landamærum hafa eflt traust ferðamanna enn frekar og gefið þeim aukna öryggistilfinningu hér á landi. Með skimunum er betri yfirsýn yfir faraldurinn og hægt að halda útbreiðslunni í lágmarki.

Birna Ósk Einarsdóttir er framkvæmdastjóri sölu- og þjónustusviðs Icelandair.Vísir

Skiptir máli að halda Íslandi á kortinu 

„Á ákveðnum mörkuðum er einhver ferðavilji og við reynum að grípa hann, en heilt yfir er fólk enn þá heima hjá sér,“ segir Birna um stöðu mála á flugmarkaði í dag. Það sé þó mikilvægt að vekja athygli á Íslandi sem áfangastað og þar komi markaðsátak á borð við það sem Íslandsstofa fór af stað með sterkt inn.

„Þetta skref hjá Íslandsstofu er hugsað til þess að halda okkur lifandi. Þetta er ekki stór partur af heildarátakinu og ekki mjög dýr heldur. Þetta er svona „stunt“ til þess að halda okkur á kortinu,“ segir Birna og bætir við að það virðist ætla að skila tilætluðum árangri.

„Svona PR-markaðssetning eins og þessi, þar sem er verið að reyna að gera eitthvað og láta alla aðra fjalla um það – sem slíkt er þetta algjörlega frábært.“

Hún segir krísuna þó vera lengri en leit út fyrir í upphafi. Nú sé veturinn á næsta leyti og enn sé smitum að fjölga í mörgum löndum, til að mynda í Bandaríkjunum. Sögulega séu Bandaríkin mikilvægasti markaður Icelandair en nú sé Þýskaland, Belgía og Holland að koma sterk inn ásamt Norðurlöndunum.

Aðstæður séu þó fljótar að breytast og fólk sé að panta með minni fyrirvara en áður.

„Ef ég er mjög bjartsýn og jákvæð, þá erum við með 6-8 vikna sýn á hverjum tíma.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×