Innlent

Unga fólkið of skyn­samt til að taka ein­hverjar á­hættur

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn hjá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra.
Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn hjá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra. Vísir/Vilhelm

Lögreglan og viðbragðsaðilar biðla til fólks að sýna skynsemi og hópast ekki saman á stórum óformlegum skemmtunum um verslunarmannahelgina. Mörgum stórum hátíðum hefur verið aflýst vegna samkomutakmarkana en áhyggjur hafa verið uppi um sjálfsprottnar útihátíðir þar sem skipulagðrar gæslu og viðbótar hreinlætisaðstöðu nýtur ekki við.

Að hámarki fimm hundruð manns mega koma saman þar til fjórða ágúst þegar fjöldatakmarkanir verða rýmkaðar upp í þúsund. Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn hvetur sérstaklega ungt fólk til þess að sýna ábyrgð.

„Lögreglan víða um land er að meta stöðuna hjá sér. Þar eru menn að ræða málin, hvað hægt sé að gera. Það sem er stóra málið í þessu öllu saman er að fólk sýni ábyrgð og fólk sé ekki að hópast saman. Þar höfðum við til unga fólksins okkar að vera skynsamt,“ segir Víðir í samtali við fréttastofu.

Þá segir hann í góðu lagi að fólk hitti vini sína og komi saman í einhvers konar hópum.

„En að mæta þúsundir saman á einhvern einn stað er mjög óskynsamlegt og við vitum að unga fólkið okkar er skynsamara heldur en það að taka þá áhættu.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×