Innlent

Tveir bíða eftir mót­efna­mælingu

Kristín Ólafsdóttir skrifar
21 sýni var greint á sýkla- og veirufræðideild Landspítala í gær.
21 sýni var greint á sýkla- og veirufræðideild Landspítala í gær. Þorkell Þorkelsson/Landspítali háskólasjúkrahús

Tveir greindust með kórónuveiruna við landamæraskimun síðasta sólarhringinn en bíða báðir eftir mótefnamælingu. Virk smit á landinu eru átta og helst fjöldinn óbreyttur milli daga. 79 eru í sóttkví.

Alls voru 1.629 sýni tekin síðasta sólarhringinn, þar af var 21 greint á sýkla- og veirufræðideild Landspítala. Talsvert fleiri sýni voru þannig tekin síðasta sólarhringinn en sólarhringinn þar áður, fyrsta daginn sem skimað var án aðkomu Íslenskrar erfðagreiningar.

Ekki eru lengur talin með í heildarfjölda smita þau tilvik landamæraskimunar þar sem mótefni hafa mælst gegn veirunni. Jákvæðu sýnin í gær eru þannig ekki komin inn í tölur yfir staðfest smit en það breytist ef smitin reynast virk. Í dag mælist nýgengi smita, þ.e. virk smit síðastliðna 14 daga á 100 þúsund íbúa, 1,91.

Boðað hefur verið til upplýsingafundar klukkan 14 vegna kórónuveirunnar í húsakynnum landlæknisembættisins í Katrínartúni. Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir og Páll Matthíasson forstjóri Landspítala fara yfir stöðu mála varðandi opnun landamæra, sýnatöku og framgang faraldursins hér á landi ásamt Víði Reynissyni, yfirlögregluþjóni. Fundurinn verður í beinni útsendingu hér á Vísi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×