Fótbolti

Dregið í Meistara- og Evrópudeildinni í beinni á Stöð 2 Sport

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Sergio Ramos og Kevin De Bruyne í baráttunni í fyrri leik Real Madrid og Manchester City í sextán liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu. Enska liðið vann leikinn, 1-2.
Sergio Ramos og Kevin De Bruyne í baráttunni í fyrri leik Real Madrid og Manchester City í sextán liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu. Enska liðið vann leikinn, 1-2. getty/Diego Souto

Í dag verður dregið í átta liða og undanúrslit Meistaradeildar Evrópu og Evrópudeildarinnar. Dregið verður í höfuðstöðvum UEFA, Knattspyrnusambands Evrópu, í Nyon í Sviss.

Hægt verður að fylgjast með báðum dráttum í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport og Vísi. Drátturinn í Meistaradeildinni hefst klukkan 10:00 og drátturinn í Evrópudeildinni klukkan 11:00.

Úrslitin í Meistara- og Evrópudeildinni ráðast í næsta mánuði. Fyrirkomulagið verður nokkuð óhefðbundið vegna kórónuveirufaraldursins en tekin verður upp eins konar úrslitakeppni. Aðeins einn leikur verður í átta liða og undanúrslitunum og fer hann fram á hlutlausum velli.

Enn er fjórum leikjum í sextán liða úrslitum Meistaradeildarinnar ólokið. Þeir fara fram 7. og 8. ágúst. Úrslitakeppnin fer svo fram í Lissabon 12.-23. ágúst.

Atalanta, Atlético Madrid, RB Leipzig og Paris Saint-Germain eru þegar komin áfram í átta liða úrslit Meistaradeildarinnar. Seinni leikjunum í rimmum Chelsea og Bayern München, Napoli og Barcelona, Real Madrid og Manchester City og Lyon og Juventus, er enn ólokið.

Seinni leikirnir í sextán liða úrslitum Evrópudeildarinnar eru ekki enn búnir. Þeir fara fram 5. og 6. ágúst. Fyrri leikir Inter og Getafe og Sevilla og Roma gátu ekki farið fram vegna kórónuveirufaraldursins og því ráðast úrslitin í þeim rimmum í einum leik.

Úrslitakeppnin í Evrópudeildinni verður leikin í Þýskalandi 10.-21. ágúst. Leikið verður í fjórum borgum: Duisburg, Düsseldorf, Gelsenkirchen og Köln. Úrslitaleikurinn fer fram í síðastnefndu borginni.

Liðin í pottinum í Meistaradeildinni

  • Atalanta
  • Atlético Madrid
  • Leipzig
  • Paris Saint-Germain
  • Chelsea/Bayern München (0-3)
  • Napoli/Barcelona (1-1)
  • Real Madrid/Man. City (1-2)
  • Lyon/Juventus (1-0)

Liðin í pottinum í Evrópudeildinni

  • Istanbul Basaksehir/FC København (1-0)
  • Olympiacos/Wolves (1-1)
  • Rangers/Bayern Leverkusen (1-3)
  • Wolfsburg/Shakhtar Donetsk (1-2)
  • Inter/Getafe
  • Sevilla/Roma
  • Frankfurt/Basel (0-3)
  • LASK Linz/Man. Utd. (0-5)



Fleiri fréttir

Sjá meira


×