Erlent

Loka fylkjamörkum milli Viktoríu og Nýju Suður-Wa­les

Atli Ísleifsson skrifar
Flugleiðin milli Melbourne og Sydney í Nýju Suður-Wales er ein sú fjölfarnasta í heimi.
Flugleiðin milli Melbourne og Sydney í Nýju Suður-Wales er ein sú fjölfarnasta í heimi. Getty

Yfirvöld í Ástralíu hafa lokað fylkjamörkunum milli Viktoríu og Nýju- Suður-Wales, tveggja fjölmennustu fylkja landsins, eftir að mikil fjölgun hefur orðið í tilfellum nýrra kórónuveirusmita í Melbourne.

Nokkur hundruð nýrra smita hafa komið upp í stórborginni, sem er að finna í Viktoríu, á síðustu tveimur vikum. Hafa um 95 prósent af nýjum smitum í Ástralíu síðustu vikurnar komið upp í Melbourne.

Viktoría og Nýja Suður-Wales hafa til þessa haldið mörkunum opnum, þrátt fyrir að önnur fylki hafi haldið sínum lokuðum. Nú þarf fólk sérstakt leyfi frá yfirvöldum til að fá að ferðast milli fylkjanna.

Daniel Andrews, forsætisráðherra Viktoríu, segir að um sameiginlega ákvörðun hans, Scott Morrison, forsætisráðherra landsins, og Gladys Berejiklian, forsætisráðherra Nýju Suður-Wales, hafi verið að ræða.

Andrews gaf engar vísbendingar um hvenær mætti eiga von á því að fylkjamörkin yrðu opnuð á ný, en í frétt BBC segir að flugleiðin milli Melbourne og Sydney í Nýju Suður-Wales sé ein sú fjölfarnasta í heimi.

Ástalir hafa fyrst og fremst glímt við smit sem hafa komið til landsins með fólki erlendis frá, en að undanförnu hefur um 80 prósent nýrra smitast flokkast sem innanlandssmit.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×