Erlent

Yfirgnæfandi meirihluti samþykkti stjórnarskrárbreytingar Pútíns

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Vladimír Pútín Rússlandsforseti greiddi atkvæði í dag og sést hér á kjörstað.
Vladimír Pútín Rússlandsforseti greiddi atkvæði í dag og sést hér á kjörstað. AP/Alexei Druzhinin

Yfirgæfandi meirihluti þeirra sem kusu í þjóðaratkvæðagreiðslu um stjórnarskrárbreytingar í Rússlandi samþykktu breytingarnar. Þær gera það að verkum að Vladímír Pútín Rússlandsforseti getur setið tvö kjörtímabil í viðbót nái hann kjöri, eða til ársins 2036.

Samkvæmt opinberum tölum höfðu 78 prósent þeirra sem greiddu atkvæði samþykkt breytingarnar þegar 90 prósent atkvæða höfðu verið talin, 21 prósent greiddi atkvæði gegn breytingunum. Kjörsókn var 65 prósent að sögn kjörstjórnar.

Atkvæðagreiðslan hófst á fimmtudag og snýst um þær breytingar sem Pútín forseti vill að séu gerðar á stjórnarskrá landsins. Sú tillaga sem hefur vakið langmesta athygli snýst um hversu mörg kjörtímabil forseti má sitja. Pútín er nú á öðru kjörtímabili sínu í röð og má samkvæmt núgildandi stjórnarskrá ekki gefa kost á sér á ný.

Ef breytingarnar taka gildi eins og nú er útlit fyrir verður hins vegar byrjað að telja upp á nýtt og gæti Pútín því setið til 2036, nái hann endurkjöri í tvígang.

Alexei Navalny, einn helsti andstæðingur og gagnrýnandi á stjórn Pútíns sagði að stjórnarandstaðan myndi aldrei viðurkenna úrslitin. Þjóðaratkvæðagreiðslan hafi einungis verið sýning hönnuð til þess að tryggja að Pútín geti setið á valdastóli til æviloka.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×