Skoðun

Einka­fjár­magn óskast

Ellen María S. Bergsveinsdóttir skrifar

Á meðan lántakar fagna lækkandi vöxtum hérlendis þá bíður fjárfestum ærið verkefnið að ná viðunandi ávöxtun á sínu fé. Fjármagn hlýtur því að vilja sækja í áhættumeiri eignir og verkefni, hluti þess hið minnsta.

Að fjárfesta í nýsköpun kemur þar inn sem vænlegur kostur fyrir marga. Ríkisstjórnin hefur að undanförnu kynnt aðgerðir sem auka stuðning við nýsköpun. Einna helst er það þó endurgreiðsla á rannsóknar- og þróunarkostnaði eða skattaívilnanir, en einhvern veginn þarf að fjármagna reksturinn þangað til að endurgreiðslu kemur. Eðli málsins samkvæmt eru tekjur oft af skornum skammti í upphafi hjá nýsköpunarfyrirtækjum. Þá kemur til sögu einkafjármagnið.

Mörg spennandi sprotafyrirtæki sárvantar fjármagn í dag og að líkindum munu enn fleiri hefja leitina á næstu misserum. Eftir bankahrunið jókst hlutfall fyrirtækja í nýsköpunartengdum atvinnugreinum og má leiða líkum að því að slík aukning muni eiga sér stað aftur nú. Margar góðar hugmyndir fara á flug þegar kreppir að í efnahagslífinu.

Fjármagn er til staðar á Íslandi en innlán í íslenska hagkerfinu námu alls 2.151 ma.kr. í lok apríl á þessu ári. Það er því til talsvert af lausu fé sem gæti viljað leita meiri ávöxtunar í því lágvaxtaumhverfi sem ríkja mun um fyrirsjáanlega framtíð.

Hérlendis hefur skort vettvang sem leiðir þessa aðila, nýsköpunarfyrirtæki og einkafjármagnið, saman á skilvirkan hátt. Það getur reynst stofnendum sprotafyrirtækja þrautinni þyngra að finna fagfjárfesta og aðra smærri fjárfesta, eftir að reynt hefur á fjölskyldu og nánasta tengslanet. Lausn á slíku gæti meðal annars verið markaðstorg í líkingu við Nasdaq First North.

Það væri til mikilla hagsbóta fyrir hagkerfið ef unnt væri að koma hluta af þessu einkafjármagni í vinnu og gefa því tækifæri til að styðja við verðmætasköpun og störf framtíðarinnar. Leitum leiða til að auðvelda fjárfestum, stórum sem smáum, að styðja við nýsköpunarfyrirtæki hér á landi. Því betur má ef duga skal.

Höfundur er fjármálastjóri Mink Campers ehf.




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×