Innlent

Yfir þrjátíu þúsund sótt ferðagjöf stjórnvalda

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir er meðal annars ráðherra ferðamála.
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir er meðal annars ráðherra ferðamála. Vísir/Vilhelm

Nú hafa yfir þrjátíu þúsund manns sótt hina svokölluðu Ferðagjöf, en það er 5.000 króna styrkur stjórnvalda til hvers einstaklings sem hefur náð 18 ára aldri og er með lögheimili hér á landi. Gjöfin er eyrnamerkt ferðalögum innanlands og var verkefninu hrundið af stað til þess að bregðast við efnahagsþrengingum af völdum kórónuveirufaraldursins sem nú geisar.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu. Þar er haft eftir Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur, ferðamála- iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, að hún sé ánægð með hvernig verkefnið fer af stað.

„Það er gott að þetta verkefni fari svona vel af stað og gaman að sjá hversu margir taka Ferðagjöfinni fagnandi. Markmiðin eru að hvetja Íslendinga til að ferðast um landið, styðja við ferðaþjónustuna og umfram allt njóta sumarsins á Íslandi. Við erum í þessu saman.“

Hægt er að nálgast nánari upplýsingar um átakið á vefnum Ferðalag.is.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×