Íslenski boltinn

Þjálfari Þórs um Cool­bet-málið: „Leiðin­legt að svona hlutir komi upp“

Anton Ingi Leifsson skrifar
Páll Viðar er mættur aftur í Þorpið.
Páll Viðar er mættur aftur í Þorpið. vísir/s2s

Páll Viðar Gíslason, þjálfari Þórs, segir að stóra Coolbet-málið hafi verið leiðinlegt og það hafi ekki verið gaman fyrir þá standa að knattspyrnuliði Þórs.

Þórsarar hafa verið mikið í umræðunni undanfarnar vikur eftir að tveir leikmenn og þjálfari liðsins mættu með húfu merkta veðmálafyrirtækinu Coolbet í viðtöl eftir leik liðsins gegn Grindavík.

Sagan var ekki öll sögð þá - heldur voru Coolbet einnig fyrirferðamiklir á árskortum félagsins og að endingu voru Þórsarar sektaðir um 50 þúsund krónur.

Páll Viðar sagði, í samtali við Fótbolti.net, að þetta hafi truflað Þórs-liðið svo um munar fyrir bikarleikinn gegn Reyni Sandgerði í gær.

„Þú getur rétt ímyndað þér. Þetta er ekkert gaman fyrir okkur sem erum að standa í þessum fótbolta. Auðvitað er medían orðin öflug og það eru hlutir sem við náum ekki að stjórna. Auðvitað hefur þetta áhrif en við reynum að „blokka“ þetta. Við treystum á að þeir sem eiga í hlut; knattspyrnudeild Þórs og KSÍ loki þessu,“ sagði Páll.

Þórsarar fóru áfram eftir framlengingu gegn Reynismönnum í gær en sigurmarkið skoraði Sigurður Marinó Kristjánsson á 117. mínútu úr vítaspyrnu. Páll Viðar er ánægður með að hafa komist áfram.

„Leiðinlegt að svona hlutir komi upp í undirbúningi fyrir leik - eða bara hvenær sem er. Við erum ekki að afsaka eitt né neitt. Við ætluðum að reyna einbeita okkur að vellinum hérna og þess vegna er ég ánægður að við séum komnir áfram og ekki velta fyrir mér neinu öðru,“ sagði Páll.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×