Íslenski boltinn

Dramatíkin alls ráðandi á Húsavík er Þór komst áfram

Sindri Sverrisson skrifar
Þórsarar komust áfram í bikarnum eftir mikla dramatík.
Þórsarar komust áfram í bikarnum eftir mikla dramatík. mynd/thorsport.is

Rauða spjaldið fór tvisvar á loft og framlengingu og vítaspyrnukeppni þurfti til að skera úr um sigurvegara þegar Þór vann Völsung í Mjólkurbikar karla í fótbolta í kvöld.

Þórsarar eru því komnir áfram í 32-liða úrslit en þeir máttu svo sannarlega hafa fyrir því. Sigurður Marinó Kristjánsson kom Þór yfir á 20. mínútu með skalla af nærstöng eftir fyrirgjöf frá vinstri, en Sæþór Olgeirsson jafnaði metin aðeins tveimur mínútum síðar með skalla, í blíðviðrinu á Húsavík.

Þórsarar misstu Alvaro Montejo af velli með rautt spjald rétt fyrir hálfleik, þegar hann fékk sitt annað gula spjald fyrir leikaraskap þegar hann reyndi að fiska vítaspyrnu. Aftur varð jafnt í liðum rétt fyrir lok seinni hálfleiks, þegar Sæþór fékk sitt seinna gula spjald fyrir að brjóta af sér í skallaeinvígi. Staðan var enn 1-1 og því þurfti að grípa til framlengingar.

Bjarki Þór Viðarsson kom Þórsurum í 2-1 með skallamarki á fimmtu mínútu framlengingarinnar. Það dugði hins vegar skammt því Bjarki Baldvinsson jafnaði metin úr víti á 118. mínútu, eftir að Orri Sigurjónsson hafði brotið af sér sem aftasti maður rétt innan teigs. Orri fékk sitt annað gula spjald og þar með rautt.

Úrslitin réðust svo í vítaspyrnukeppni þar sem að Þórsarar nýttu allar sínar spyrnur.

Nú er einnig nýlokið leik Mídasar og SR þar sem SR fór með 4-0 sigur af hólmi.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×