Körfubolti

Nýliðar Hattar frá Egilsstöðum sömdu við Ísafjarðartröllið

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sigurður Gunnar Þorsteinsson í leik með ÍR í úrslitakeppninni 2019.
Sigurður Gunnar Þorsteinsson í leik með ÍR í úrslitakeppninni 2019. Vísir/Vilhelm

Körfuboltamaðurinn Sigurður Gunnar Þorsteinsson skrifaði í dag undir samning við Hött um að spila með liðinu í Domino´s deild karla á komandi leiktíð.

Miðherjinn öflugi Sigurður Gunnar Þorsteinsson var í dag kynntur á blaðamannafundi Hattar á Barion-Bryggjan brugghús út á Granda en þetta er svakalegur liðstyrkur fyrir nýliðana.

Sigurður Gunnar Þorsteinsson er 32 ára gamall miðherji sem hefur unnið Íslandsmeistaratitilinn með bæði Keflavík og Grindavík en hann fór einnig alla leið í lokaúrslitin með ÍR vorið 2019.

Sigurður Gunnar hóf hins vegar ferillinn með KFÍ á Ísafirði og spilaði tvö fyrstu tímabilin sín í efstu deild með KFÍ frá 2003 til 2005. Þaðan lá leiðin til Keflavíkur og svo til Grindavík en hann hefur einnig reynt fyrir sér í atvinnumennsku í Svíþjóð og á Grikklandi.

Sigurður Gunnar missti af öllu síðasta tímabili eftir að hann sleit krossband í fyrsta leik. Hann var með 14,6 stig og 8,9 fráköst að meðaltali með ÍR í deildarkeppninni 2018-19. Sigurður Gunnar yfirgaf ÍR eftir tímabilið og hefur nú fundið sér nýtt lið á Egilsstöðum.

Sigurður Gunnar hefur spilað 264 leiki í úrvalsdeild karla og er í 15. sæti í fráköstum og í 4. sæti í vörðum skotum í sögu deildarinnar. Hann hefur sex sinnum farið alla leið í lokaúrslitin um Íslandsmeistaratitilinn með Keflavík (2008 og 2010), Grindavík (2012, 2013 og 2014) og ÍR (2019).

Höttur var efst í 1. deild karla í vetur þegar leik var hætt vegna kórónuveirunnar og KKÍ ákvað að Höttur færi upp í Domino´s deildina. Þetta verður fjórða tímabil Hattar í úrvalsdeildinni en liðið hefur fallið á hinum þremur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×