Erlent

Líkams­ræktar­stöðvar, Tívolí og Le­góland opna á ný í Dan­mörku

Atli Ísleifsson skrifar
Frá Kaupmannahöfn.
Frá Kaupmannahöfn. Getty

Tímamót urðu í baráttu Dana við kórónuveiruna í dag þegar tilslakanir voru gerðar á samkomubanni í landinu. Nú mega fimmtíu manns koma saman, en áður var fjöldinn takmarkaður við tíu.

Meðal þess sem opnaði aftur í dag voru líkamsræktarstöðvar, sundlaugar og Tívolí í Kaupmannahöfn og Lególand í Billund á Jótlandi.

DR segir frá því að í Tívolí fari gestir í stafræna biðröð til að komast í tækin, en þeim skilaboðum hefur verið beint til gesta að bið eftir að komast í tækin verði líklega lengri en gestir garðsins eiga að venjast.

Legoland munu ekki hleypa hámarksfjölda gesta inn til að byrja með til að hægt verði að tryggja fjarlægðarmörk. Þá skulu starfsmenn þar klæðast andlitsgrímu.

Skemmtigarðar á borð við Tívolí og Legoland hafa í raun mátt hafa opið í tvær vikur, en ákveðið var að fresta opnun þar til að veita starfsfólki lengri tíma til að undirbúa opnunina.

Strangar reglur munu gilda um starfsemi líkamsrætarstöðva þar sem meðal annars þarf að sótthreinsa tæki og handlóð eftir hverja notkun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×