Innlent

Sigurður Ingi fékk Netflix til að skipta sér út fyrir Sigmund

Andri Eysteinsson skrifar
Sigurður Ingi Jóhannsson fékk atriði í myndinni Laundromat breytt.
Sigurður Ingi Jóhannsson fékk atriði í myndinni Laundromat breytt. Vísir/Vilhelm

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitastjórnarráðherra Íslands, lagði Netflix í máli vegna myndbirtingar í kvikmyndinni Laundromat.

Í myndinni, sem kom út í október í fyrra, var Sigurður Ingi bendlaður við Panamaskjölin en í myndinni birtist skjáskot þar sem sagt er frá því að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, þáverandi forsætisráðherra, sem var í Panamaskjölunum hafi sagt af sér embætti og að Sigurður Ingi hafi tekið við af honum.

Engin mynd birtist þó af Sigmundi Davíð í kvikmyndinni sem skartaði Meryl Streep í aðalhlutverki. Var því gefið til kynna að Sigurður Ingi hafi verið sá sem átti eignir í skattaskjóli og hefði sagt af sér.

Sigurður Ingi greindi frá skoðun sinni á myndbirtingunni í færslu á Facebook-síðu sinni í október og sagði hann það „sárt og óþolandi“ að vera bendlaður við Panamaskjölin í myndinni.

Nú greinir Sigurður Ingi frá því í nýrri færslu að eftir að hann hafi fengið lögmann í málið hafi Netflix tekið málið fyrir, tekið atriðið úr myndinni og sett annað í staðin sem betur samræmist raunveruleikanum.

Sigurður þakkar velvildarmönnum sínum veittan stuðning í málinu. „Mjög margir hvöttu mig til þess að fara fram á leiðréttingu og þakka ég stuðninginn. Rétt skal vera rétt,“ skrifar Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, sveitastjórnar- og samgönguráðherra og fyrrverandi forsætisráðherra.

Hér að neðan má sjá umrætt atriði úr myndinni Laundromat með Meryl Streep og Antonio Banderas. Fyrir breytingu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×