Innlent

Beið í fjóra mánuði eftir reglum um búkmyndavélar og segir þær afar óskýrar

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Ingvar telur að aukin notkun lögreglu á búkmyndavélum yrði til þess fallin að auka traust milli lögreglunnar og borgara.
Ingvar telur að aukin notkun lögreglu á búkmyndavélum yrði til þess fallin að auka traust milli lögreglunnar og borgara.

Lögmaður sem farið hefur með mál fólks sem sakað hefur lögregluna um beita sig ofbeldi óskaði eftir verklagsreglum lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu um búk- og bílamyndavélar fyrir rúmum fjórum mánuðum. Alls ítrekaði hann upplýsingabeiðni sína sjö sinnum, en honum barst fyrst svar við beiðninni síðastliðinn laugardag. Hann segir reglurnar óskýrar um hvenær lögregla skuli nota myndavélarnar og telur að aukin notkun lögreglu á þeim væri af hinu góða.

„Ég hef síðastliðna mánuði reynt að nálgast verklagsreglur eða einhverskonar innri reglur hjá lögreglunni um notkun líkamsmyndavéla, sem og myndavéla inni í lögreglubifreiðum,“ segir Ingvar S. Birgisson, lögmaður hjá Íslensku lögfræðistofunni, í samtali við Vísi. Hann hefur tekið að sér nokkur mál einstaklinga sem saka lögregluna um að hafa beitt sig ofbeldi.

Hann segir það vera sína reynslu að allur gangur sé á því hvort kveikt sé á búkmyndavélum lögreglumanna. Hið sama gildi um myndavélar lögreglubifreiða. Í verklagsreglum lögreglunnar, sem Vísir fékk sendar í svari við skriflegri fyrirspurn til lögreglu, segir að lögreglumönnum sé aðeins skylt að nota búkmyndavélar í útköllum vegna gruns um heimilisofbeldi, eða þegar um „alvarleg atvik“ er að ræða.

Ingvar Smári er lögmaður hjá Íslensku lögfræðistofunni.Mynd/Aðsend

Alvarleg atvik eru þó ekki skilgreind nánar í verklagsreglum lögreglu. Í verklagsreglum lögreglunnar um notkun myndavéla í lögreglubifreiðum er þá hvergi tekið fram hvenær myndavélarnar skuli notaðar. Reglurnar eru birtar neðst í þessari frétt.

Ingvar telur að reglur um notkun myndavélanna mættu vera skýrari.

„Það vekur athygli við lestur á þessum reglum [reglum um búkmyndavélar] að í langflestum tilvikum er það háð mati lögreglumanns hverju sinni hvort kveikt sé á búkmyndavélinni eða ekki,“ segir Ingvar.

Ingvar segist þá hafa talið að markmiðið með myndavélunum, sem lögreglan á höfuðborgarsvæðinu festi kaup á síðastliðið haust, væri að taka lögregluna upp við almenn störf.

„Ég hélt, og held að margir hafi haldið það sama, að þegar lögreglan festi kaup á búkmyndavélum yrðu þær notaðar við almenn störf lögreglunnar. Jafnvel að kveikt yrði á þeim þegar fólk er stoppað fyrir jafn smávægileg brot og hraðakstur. Það er aldrei ljóst fyrir fram hvenær þörf er á upptöku á samskiptum við borgarana og lögregluna.“

Hann segir það sína skoðun að heillavænlegra væri ef lögreglan endurskoðaði reglurnar, í því skyni að stuðla að aukinni notkun myndavélanna.

Myndavélar tilgangslausar án skýrra reglna

„Erlendar samantektir sýna fram á það að notkun slíkra myndavéla dregur úr tilvikum þar sem lögreglan ofbeitir valdi sínu. Þessar myndavélar gegna þó ekki síður því hlutverki að vernda lögregluna fyrir ásökunum sem eiga sér enga stoð.“

Hann segir að í málum umbjóðenda sinna, sem saka lögreglu um að hafa beitt sig ofbeldi, hafi komið upp sú staða að enginn lögreglumaður á staðnum hefði verið með kveikt á búkmyndavél, þrátt fyrir að hafa verið með hana. Eins hafi verið slökkt á myndavélum í lögreglubílum.

„Það er algjörlega tilgangslaust að kaupa myndavélar inn í bifreiðar og á lögreglumenn ef ekki liggja fyrir skýrar reglur um hvernig eigi að beita þeim. Þá verður þeim, eðli málsins samkvæmt, beitt með handahófskenndum hætti, eftir reglum á hverjum svæði eða bara eftir hentisemi hvers og eins lögreglumanns. Þetta er atriði sem kann að vera ákveðinn misbrestur á.“

Beiðnin lenti ítrekað á vegg

Hvað varðar afgreiðslutíma upplýsingabeiðninnar sem Ingvar sendi lögreglu segist hann hafa ítrekað hana alls sjö sinnum. Bað hann um að fá reglurnar afhentar og fékk í hvert sinn svar um að beiðninni hafi verið beint til rétts aðila innan lögreglunnar. Honum hafi hins vegar aldrei borist svar eftir það. Vert er að taka fram að Ingvari barst svar við beiðni sinni stuttu eftir að fréttastofa sendi lögreglunni fyrirspurn um sama mál.

Ingvar segir seinagang í viðbrögðum við upplýsingabeiðnum alvanalegan innan stofnana stjórnsýslunnar. Hins vegar segir hann óvenjulegt að þurfa að ítreka beiðni jafn oft og hann hefur þurft að gera.

„Yfirleitt fær maður bara svar um að viðkomandi upplýsingar verði ekki afhentar, séu ekki til staðar eða verði afhentar.“

Samkvæmt verklagsreglum um búkmyndavélar er lögreglu aðeins skylt að nota myndavélarnar þegar um er að ræða útköll vegna heimilisofbeldis eða „alvarleg atvik,“ sem ekki eru nánar skilgreind í reglunum.Vísir/Vilhelm

Myndavélar auki traust til lögreglu

Ingvar telur að heillavænlegast væri ef lögreglan notaði myndavélarnar, bæði í bílum og á lögreglumönnum, sem mest. Það yrði til þess fallið að auka traust almennings á lögreglunni.

„Notkun upptökumyndavélabúnaðar í auknum mæli er ein skýrasta og besta leiðin í þessum málum. Það myndi upplýsa um fleiri mál þar sem lögreglan beitir ofbeldi eða staðfesta þegar ásakanir um ofbeldi eiga sér ekki stoð.“

Yfirfara þurfti ýmis atriði

Í skriflegu svari við fyrirspurn Vísis, þar sem óskað var eftir útskýringum á töfum á afgreiðslu upplýsingabeiðninnar, voru svörin á þá leið að meta hafi þurft hvort það að upplýsa um skipulag ráðstafanir lögreglu gæti leitt til þess að ráðstafanirnar yrðu þýðingarlausar og myndu þannig ekki skila tilætluðum árangri.

„Nánar tiltekið að verði almennt veittur aðgangur að verklagsreglum lögreglu, kann það að nýtast þeim sem hyggjast fremja eða hafa framið alvarleg afbrot. Þá er ekki unnt að útiloka að ýmsar tæknilegar upplýsingar um kerfi sem lögreglan notar við framkvæmd úrræðanna geti nýst til að brjótast inn í þau eða torvelda störf lögreglu með öðrum hætti. Opinberun ýmissa gagna lögreglu kann því að vera til þess fallin að raska almannahagsmunum,“ segir í svari lögreglunnar.

Tímafrekt hafi verið að fara yfir þau atriði sem talin væru til þess fallin að spilla mögulega aðferðum lögreglunnar og afla hafi þurft staðfestingar fleiri en eins aðila til að staðfesta að ekkert í reglunum skyldi vera undanskilið upplýsingarétti í samræmi við upplýsingalög.

Faraldur kórónuveiru setti strik í reikninginn

Í svari lögreglunnar segir einnig að tafirnar hafi helgast af því að lögreglan hafi á síðustu mánuðum starfað á neyðarstigi almannavarna, og þar áður á hættustigi, vegna faraldurs kórónuveirunnar sem valdið getur sjúkdómnum Covid-19.

„Það þýðir að starfsemi embættisins þurfti að aðlaga sig að sótthólfum starfsmanna til að koma í veg fyrir smit og sumir starfsmenn unnu heiman frá sér, allt til að uppfylla fyrirmæli sóttvarnalæknis og almannavarnardeildar ríkislögreglustjóra hvað varðar smitvarnir. Sú fordæmalausa staða sem jafnframt kom upp síðustu mánuði leiddi einnig af sér önnur og ófyrirséð verkefni sem varð að annast, skipulagningu aðgerða í tengslum við starf á neyðarstigi sem og að starfsmenn urðu að forgangsraða verkefnum af þeim sökum til að tryggja tiltekna starfsemi,“ segir í svari lögreglu.

Hér að neðan má sjá umræddar verklagsreglur lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, sem fréttastofa fékk sendar í svari við skriflegri fyrirspurn.

Tengd skjöl




Fleiri fréttir

Sjá meira


×