Viðskipti erlent

Kyli­e Jenner ekki lengur á lista For­bes yfir milljarða­mæringa

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Kylie Jenner var sögð yngsti sjálfskipaði milljarðamæringur sögunnar á lista Forbes yfir milljarðamæringa árið 2019.
Kylie Jenner var sögð yngsti sjálfskipaði milljarðamæringur sögunnar á lista Forbes yfir milljarðamæringa árið 2019. Getty/Toni Anne Barson

Viðskiptablaðið Forbes hefur fjarlægt Kylie Jenner, raunveruleikastjörnu og frumkvöðul, af lista sínum yfir milljarðamæringa. Blaðið sakar hana og fjölskyldu hennar um að ýkja virði snyrtivörufyrirtækis hennar.

Forbes segir að fjölskylda Jenner hafi beitt sér óeðlilega mikið fyrir því að ýkja það hve rík hún sé. Kylie Jenner er yngsta dóttir Kris Jenner og yngsta systir Kardashian systranna sem njóta mikilla vinsælda, meðal annars vegna raunveruleikaþáttanna Keeping up with the Kardashians.

Jenner skrifaði á Twitter að Forbes hefði rangt fyrir sér og hafi engan grunn fyrir ásökununum.

„Ég hef aldrei sóst eftir neinum titli eða reynt að ljúga til að fá hann,“ skrifaði hún.

„Ég get nefnt hundrað hluti sem eru mér mikilvægari akkúrat núna en að velta mér upp úr því hversu mikla peninga ég á.“

Forbes birti nafn Jenner á lista yfir ríkasta fólk heimsins árið 2019 og var hún þá yngsti „sjálfskapaði“ milljarðamæringur sögunnar. Hún var aðeins 21 árs gömul þegar hún hlaut þennan titil. Yfirlýsing Forbes um stöðu Jenner árið 2019 var gríðarlega gagnrýnd og sögðu gagnrýnendur það varla rétt að hún væri sjálfskapaður milljarðamæringur, enda væri hún hluti af Kardashian-Jenner fjölskyldunni sem hefði hagnast gríðarlega af raunveruleikaþáttunum um hana.

Forbes sagði velgengni hennar mega rekja til snyrtivörumerkjalínu hennar, Kylie Cosmetic, sem hún stofnaði árið 2015. Snyrtivörumerkjalína skrifaði undir samning við Ulta Beauty sem jók virði fyrirtækisins en það var metið á 900 milljónir dollara árið 2019 og að fullu í eign Kylie Jenner. Hún seldi þó 51 prósenta hlut í fyrirtækinu til snyrtivörurisans Coty fyrir 600 milljónir dala í fyrra.

Forbes segir nú endurskoðanda fjölskyldunnar hafa „reddað“ fyrirtækinu endurgreiðslur frá skattinum sem létu fyrirtækið virðast hafa selt vörur fyrir meira en 300 milljónir Bandaríkjadala árið 2016 og að fjölmiðlafulltrúi þeirra hafi haldið því fram að fyrirtækið hafi hagnast um 330 milljónir dala árið eftir.

Þá hafi upplýsingar sem Coty birti gefið til kynna að fyrirtæki Jenner hafi verið „töluvert minna og tekjuminna en fjölskyldan hafði gefið í skyn,“ sagði í tilkynningu frá Forbes.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×