Erlent

Bandaríkin hætta að styðja WHO

Andri Eysteinsson skrifar
Trump hélt blaðamannafund í Hvíta húsinu í dag.
Trump hélt blaðamannafund í Hvíta húsinu í dag. Getty/Win McNamee

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, tilkynnti á blaðamannafundi í dag að Bandaríkin myndu hætta samstarfi og stuðningi við Alþjóðaheilbrigðismálastofnunina, WHO.

Þetta kom fram í máli forsetans í Rósagarði Hvíta hússins en þar sagði forsetinn að þeir fjármunir sem hefðu farið til WHO verði nýttir til stuðnings annara heilbrigðisstofnanna. Sky greinir frá.

Trump hefur undanfarnar vikur og mánuði gagnrýnt stofnunina og sagt hana ganga erinda kínverskra stjórnvalda auk þess sem að hafa brugðist illa við faraldri kórónuveirunnar.

Forsetinn sagði á fundinum að kínverskir embættismenn hefðu ekki sinnt tilkynningarskyldum sínum til stofnunarinnar og hafi beitt þrýstingi gegn stofnuninni til þess að fá WHO til að afvegaleiða umheiminn þegar veiran var uppgötvuð.

Trump kennir Kínverjum um útbreiðslu Covid-19 sýkingarinnar og sagði kínversk stjórnvöld bera ábyrgð á yfir 100.000 dauðsföllum af völdum veirunnar í Bandaríkjunum og milljónir um allan heiminn.

Trump gagnrýndi þó ekki eingöngu Kínverja vegna veirunnar sem hann kallar enn Wuhan-veiruna heldur fjallaði hann einnig um nýja öryggislöggjöf Kínverja vegna Hong Kong sem hefur valdið miklum usla í borgríkinu undanfarið. Forsetinn sagði Hong Kong ekki teljast sjálfstjórnarríki lengur og sagði Bandaríkin ekki munu sinna borginni sérstaklega vegna þessa.

Bandaríkin eru helsti bakhjarl alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar og hefur ríkið veitt 450 milljónum dala árlega til WHO.

Talið var líklegt að forsetinn myndi svara spurningum um andlát Minneapolis-búans George Floyd eftir erindi sitt á fundinum en forseti leyfði engar spurningar eftir að hafa lokið máli sínu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×