Skoðun

Bölvun auðlindanna

Oddný G. Harðardóttir skrifar

Samherjahjón ákveða að greiða börnum sínum arf, fyrirfram. Sagt er að verðmætið sé um 70 milljarðar króna. Það er há upphæð sem foreldrar ákveða að færa börnum sínum. Auður sem hefur orðið til vegna þess að eigendur Samherja hafa haft aðgang að sameiginlegum auðlindum þjóðarinnar.

Auðlindarentan af fiskveiðiauðlindinni hefur runnið nær óskipt í vasa úrgerðarmanna á Íslandi. Renta sem ætti að renna í ríkissjóð og sveitarsjóði og þaðan til allra barna og velferðarkerfisins, rennur í vasa útgerðarmanna og þaðan beint til barna þeirra.

Þegar börnunum áttaþúsund sem búa á íslenskum heimilum sem þurfa að framfleyta sér undir fátæktarmörkum er stillt upp við hliðina á börnum Samherja með arfinn sinn, verður ójöfnuðurinn átakanlegur.

„Bölvun auðlindanna“ er þekkt hugtak í hagfræði. Spilling er böl sem getur oft verið fylgifiskur skjótfengins gróða sem miklar náttúruauðlindir geta skapað. Ísland býr yfir ríkulegum sjávarauðlindum og þessi bölvun vofir yfir okkur líkt og Namibíu.

Gallað kerfi

Það er skömm af því að auðlindarákvæði sé ekki komið í stjórnarskrá eftir afgerandi stuðning við það í þjóðaratkvæðagreiðslu um tillögur stjórnlagaráðs fyrir næstum átta árum.

Það hlýtur því að vera viðfangsefni okkar stjórnmálamanna að sjá til þess að kerfið sem við setjum um nýtingu auðlinda, bæði um úthlutun nýtingaleyfa sem og verðlagningu þeirra, verði sem gagnsæjast og byggi á jafnræði.

Við í Samfylkingunni höfum í nær tvo áratugi, eða allt frá stofnun flokksins, lagt fram tillögur um sanngjarnara og gegnsærra kerfi. Heppilegasta leiðin til að ákvarða gjald fyrir sérleyfi til nýtingar á takmarkaðri auðlind er að bjóða út sérleyfin í viðráðanlegum skrefum og útfæra tilboðsleiða með því að setja reglur sem taka tillit til byggðasjónarmiða, koma í veg fyrir samþjöppun og virða sérstöðu minni útgerða.

Við höfum einnig lagt til að aukinn ávinningur gangi til sveitarfélaganna í landinu sem við teljum að stuðli að sátt um tímabærar breytingar.

Það er hægt að laga gallað kerfi. Vilji er allt sem þarf.

Höfundur er þingmaður Samfylkingarinnar.




Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×