Erlent

Fyrsta sam­kynja parið gengur í það heilaga á Kosta Ríka

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Þjóðfáni Kosta Ríka og Hinseginfáninn blöktu við hún eftir að samkynja hjónabönd voru lögleitt í landinu.
Þjóðfáni Kosta Ríka og Hinseginfáninn blöktu við hún eftir að samkynja hjónabönd voru lögleitt í landinu. EPA-EFE/Jeffrey Arguedas

Fyrsta samkynja parið gifti sig á K0sta Ríka í dag en Kosta Ríka er fyrsta land Mið-Ameríku til að lögleiða hjónabönd samkynja para. Konurnar sem gengu fyrstar í það heilaga samkynja para giftust rétt eftir miðnætti í nótt þegar lögin tóku gildi.

Hjónavígslan var sýnd í beinni útsendingu hjá ríkissjónvarpi landsins. Carlos Alvarado, forseti landsins, sagði að lagabreytingin þýddi að Kósta Ríka viðurkenndi nú réttindin sem hinsegin fólk hefði alltaf átt skilin.

Hann tísti að „samkennd og ást ættu héðan í frá að vera leiðbeinandi meginreglur sem myndu leyfa landinu að stíga framfaraskref og byggja land sem viðurkenndi tilvist allra.“

Marco Castillo (t.v.) 76 ára aðgerðasinni og eiginmaður hans Rodrigo Campos (t.h.) giftu sig í dag.EPA/JEFFREY ARGUEDAS

Fyrsta hjónavígslan samkynja pars var send út í beinni útsendingu og var hún hápunktur þriggja klukkutíma dagskrárliðar sem hélt upp á jafnrétti allra til að gifta sig.

Lögum landsins um hjónabönd var breytt eftir að stjórnarskrárdómstóllinn komst að þeirri niðurstöðu í ágúst 2018 að bann á samkynja hjónaböndum væri stjórnarskrárbrot og stuðlaði að ójöfnuði. Dómstóllinn gaf þjóðþinginu 18 mánuði til að breyta lögunum.

Enrique Sanchez, fyrsti opinberlega samkynhneigði þingmaður landsins, sagði breytinguna velkomna og hrósaði þeim sem höfðu varið áratugum í að berjast fyrir breyttum lögum.

Nokkur lönd í Suður-Ameríku heimila hjónaband samkynja para, það er Argentína, Brasilía, Kólumbía, Ekvador og Úrúgvæ. Þá eru hjónaböndin einnig leyfileg í sumum ríkjum Mexíkó en Kosta Ríka er fyrsta landið í Mið-Ameríku sem hefur lögleitt hjónaböndin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×