Fótbolti

KSÍ staðfestir að nýja merkið sýni landvættina fjóra ásamt fánakrossi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Myndin sem birtist á vef Puma í morgun en virðist nú hafa verið fjarlægð.
Myndin sem birtist á vef Puma í morgun en virðist nú hafa verið fjarlægð. Mynd/Puma

Klara Bjartmarz framkvæmdastjóri KSÍ, segir að Puma hafi komið KSÍ í opna skjöldu með því að birta nýja KSÍ merkið á vef sínum í dag.

Þýski íþróttavöruframleiðandinn Puma sagði frá nýjum sex ára samningi við Knattspyrnusamband Íslands í morgun alveg eins og KSÍ. Munurinn var bara að Puma sýndi mynd af íslenskum landsliðsbúningi með nýja merkinu.

Nýtt landsliðsmerki, sem áður hefur verið greint frá, verður kynnt í lok júní og verður það merki á nýja PUMA landsliðsbúningnum, sem verður opinberaður um miðjan júlí, sagði í fréttinni á heimasíðu KSÍ í morgun en þar fylgdi engin mynd.

„Planið var að við ætluðum að opinbera nýja merkið um miðjan júní og við vorum að undirbúa það, svo þetta náttúrulega kom okkur algerlega í opna skjöldu. Við vorum búin að setja upp ákveðna tímalínu sem er alveg ljóst að er núna í uppnámi svo við erum að endurhugsa það. Við ætlum að gefa okkur smá tíma í það, fá okkur kaffisopa og ráða ráðum okkar með framhaldið,“ Klara Bjartmarz framkvæmdastjóri KSÍ, í samtali við Viðskiptablaðið.

Klara segir að merkið sem sjáist á myndinni hjá PUMA sé í raun bara hluti af því merki sem unnið hefur verið með.

„Það er margra mánaða, ef ekki ára, vinna þarna á bak við, og mikil saga sem við ætluðum að segja og ýmsar útgáfur sem við ætluðum að kynna, og ætlum enn að gera, við höldum áfram okkar vinnu í því,“ segir Klara sem staðfesti þó við blaðamann Viðskiptablaðsins að merkið sýni landvættina fjóra ásamt fánakrossi sem myndi eins og stórt X á milli þeirra.

„Þetta eru fallegar pælingar úr sögu lands og þjóðar enda mikil hugmyndavinna þarna á bak við. Ef ég man rétt voru þrjár auglýsingastofur sem komu inn í undirbúningsvinnuna með okkur og síðan var valin ein tillaga sem unnið var áfram með, með aðstoð UEFA, svo það hefur verið langur aðdragandi að þessu," sagði Klara en það má sjá allt viðtalið við hana með því að smella hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×