Innlent

Lögregla fylgdi veikum farþega úr flugvél frá München

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Farþeginn kom með flugi Icelandair frá München á fimmta tímanum.
Farþeginn kom með flugi Icelandair frá München á fimmta tímanum. Vísir/vilhelm

Veikur farþegi var um borð í vél Icelandair sem kom frá München til Keflavíkur snemma á fimmta tímanum í dag. Grunur er um að farþeginn gæti verið smitaður af kórónuveiru, samkvæmt upplýsingum frá Icelandair. Farþeganum, sem er íslenskur, var fylgt frá borði af lögreglu, að því er fram kemur í frétt Mbl sem greindi fyrst frá málinu.

Ásdís Ýr Pétursdóttir upplýsingafulltrúi Icelandair segir í samtali við Vísi að tilkynnt hafi verið um grun um smit í vélinni. Þá fari ákveðin verklagsáætlun í gang en við lendingu í Keflavík taka almannavarnir við viðbragði. „Okkar hlutverki lýkur þá,“ segir Ásdís.

Í frétt Mbl segir að farþeginn hafi tilkynnt um veikindi eftir að hann kom upp í vélina. Þá er haft eftir blaðamanni Mbl sem var um borð í vélinni að aðrir farþegar hafi verið óánægðir með það að maðurinn hafi ekki tilkynnt um einkennin fyrr en hann var kominn um borð. Rýma þurfti sætaraðir í kringum hann vegna veikindanna.

Eftir komuna til Keflavíkur kom lögregla um borð og ræddi við flugstjóra. Farþegum var leyft að fara frá borði tæplega hálftíma síðar og var manninum svo fylgt frá borði þegar aðrir farþegar voru farnir út, að því er segir í frétt Mbl.

Farþegar sem koma frá hættusvæðum í Ölpunum, líkt og flestir farþegarnir um borð í umræddri vél frá München, er skylt að fara strax í sóttkví við komuna til landsins, samkvæmt tilmælum frá sóttvarnalækni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×