Fótbolti

Björn Daníel: Allir hjá félaginu stefna að því sama og það er að vinna deildina á hverju ári

Anton Ingi Leifsson skrifar
Björn Daníel Sverrisson í leik með FH á síðstu leiktíð.
Björn Daníel Sverrisson í leik með FH á síðstu leiktíð. vísir/daníel

Björn Daníel Sverrisson, fyrirliði FH, segir að stefnan í Hafnarfirði sé að vinna deildina á hverju ári og að félagið stefni ekki að „bara“ enda í þremur efstu sætunum.

Björn Daníel og félagar eru byrjaðir að æfa á ný eftir rúmlega tvo mánuði en þeir hafa æft í minni hópum. Á mánudaginn fá þeir leyfi til þess að byrja að æfa án takmarkanna en Björn segir að það sé gott að vera kominn aftur á völlinn.

„Það er geggjað. Þetta var langur tími þar sem maður var að hlaupa á hlaupabrettinu og gera alls konar æfingar heima hjá sér. Það er gott að vera kominn á æfingar aftur og að sparka í bolta,“ sagði Björn í samtali við Svövu Kristínu Grétarsdóttur. Hann segir að stefnan í Krikanum sé á titil.

„Já, þegar maður spilar fyrir FH hugsar maður ekki um að enda í topp þremur. Maður hugsar um það að stefna á toppinn og vinna deildina. Ég held að það séu allir viðloðnir félagið þeir stefni að því sama og það er að vinna deildina á hverju ári.“

Björn var gagnrýndur fyrir frammistaða sínu á síðustu leiktíð en áður en hann hélt í atvinnumennsku var hann valinn besti leikmaður úrvalsdeildarinnar.

„Ég er sjálfur gagnrýninn á mig. Ég var ekki nógu góður. Ég var bestur fyrir tíu árum og það er langt síðan. Það væri gaman að geta fengið uppreisn æru, ef það er hægt að segja svo, á þessu tímabili og maður var búinn að æfa vel fram að COVID. Svo er maður að reyna sér að koma sér í gang aftur. Maður hélt sér við en ég held að það taki nokkra leiki hjá öllu að komast í sitt besta stand sérstaklega þar sem maður var ekki að sparka í boltann á næstu leiktíð.“

Miðjumaðurinn knái er orðinn fyrirliði FH eftir að Davíð Þór Viðarsson lagði skóna á hilluna og hann er stoltur af því.

„Ég var mjög ánægður þegar Óli talaði við mig og stoltur. Ég er uppalinn hérna og að vera gerður að fyrirliða FH er draumur hjá manni þegar maður var yngri. Það var kominn tími á Davíð svo það þurfti að finna einhvern nýjan og ég er ánægður og stoltur að hafa fengið það hlutverk.“

Allt viðtalið við Björn má sjá hér að neðan.

Klippa: Sportpakkinn - Björn Daníel



Fleiri fréttir

Sjá meira


×