Sport

„Það væri ósanngjarnt fyrir Liverpool“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Stuðningsmaður Liverpool fagna á síðasta útsláttarleik Livrerpool á Anfield en Liverpool vann þá 4-0 sigur á Barcelona.
Stuðningsmaður Liverpool fagna á síðasta útsláttarleik Livrerpool á Anfield en Liverpool vann þá 4-0 sigur á Barcelona. Getty/Robbie Jay Barratt

Liverpool hefur getað treyst á magnaða stemningu á Anfield í mörgum Evrópuleikjum á síðustu árum og svo verður einnig í kvöld.

Liverpool er 1-0 undir á móti spænska liðinu Atletico Madrid eftir fyrri leikinn á Spáni en það lið sem hefur betur í þessum tveimur leikjum kemst áfram í átta liða úrslit Meistaradeildarinnar.

Margir Evrópuleikir í vikunni þurfa að fara fram fyrir luktum dyrum vegna baráttunnar við útbreiðslu kórónuveirunnar. Stuðningsmenn Liverpool hafa því eflaust nagað neglurnar síðustu daga af ótta við að Anfield hafi ekki lengur grænt ljóst fyrir áhorfendur.

„Maður hafði heyrt orðróm um að leikurinn á Anfield myndi fara fram án áhorfenda,“ sagði Diego Simeone, knattspyrnustjóri Atletico Madrid á blaðamannafundi fyrir leikinn.

Það lítur nú út fyrir það að áhorfendur fá að mæta á seinni leik Liverpool og Atletico Madrid á Anfield í kvöld og Liverpool mun því njóta góðs af þeim frábæra stuðningi sem liðið fær alltaf á Anfield og ekki síst í Evrópuleikjum.

„Það væri ósanngjarnt fyrir Liverpool að spila á móti áhorfendum á okkar velli en síðan þyrftum við ekki að spila fyrir framan þeirra áhorfendur,“ sagði Diego Simeone á blaðamannafundinum.

Stuðningsmenn Atletico Madrid stóðu sig frábærlega í fyrri leiknum á Metropolitano leikvanginum í Madrid en meira en 67 þúsund manns mættu á þann leik.

Leikur Liverpool og Atlético Madrid hefst klukkan 20.00 í kvöld og verður sýndur beint á Stöð 2 Sport. Upphitun fyrir leiki kvöldsins í Meistaradeildinni hefst klukkan 19.15 á sömu stöð og eftir leikina verða þeir gerðir upp. Leikur PSG og Borussia Dortmund verður sýndur á Stöð 2 Sport 2.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×