Innlent

Vísinda­vika norður­slóða á Akur­eyri flutt yfir í net­heima vegna veirunnar

Atli Ísleifsson skrifar
Von var á um 1.200 gestum til Akureyrar í tengslum við Vísindavikuna.
Von var á um 1.200 gestum til Akureyrar í tengslum við Vísindavikuna. Getty

Ákvörðun hefur verið tekin að flytja Vísindaviku norðurslóða, sem fara átti fram á Akureyri um næstu mánaðarmót, alfarið yfir í netheima vegna útbreiðslu kórónuveirunnar.

Þetta kemur fram í tilkynningu á vef Alþjóðlega norðurskautsvísindanefndarinnar. Segir að það sé forgangsmál að tryggja öryggi og árangsríka og ánægjulega reynslu allra þeirra sem koma að samkomunni.

Vísindavika norðurslóða (e. Arctic Science Summit Week (ASSW 2020)) verður haldin dagana 27. mars til 2. apríl 2020, en hún er hluti af formennskuáætlun Íslands í Norðurskautsráðinu.

Það er Háskólinn á Akureyri sem skipuleggur vísindavikuna með Rannís, en Vísindavikan er haldin í nánu samstarfi við ráðuneyti menntamála, umhverfis og utanríkis- ásamt Akureyrarbæ.

„Vísindavika norðurslóða er árleg samkoma alþjóðlegra samtaka sem hafa það sameiginlegt að styðja og hvetja til rannsókna á norðurslóðum. Markmið Vísindavikunnar er að skapa tækifæri fyrir alþjóðlega samvinnu og samstarf á öllum sviðum norðurslóðarannsókna,“ segir á vef HA um Vísindavikuna.

Í haust var sagt frá því að von væri á allt að 1.200 gestum til Akureyrar vegna samkomunnar og má því telja víst að þessi ákvörðun nú komi illa við ferðaþjónustu á svæðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×