Viðskipti innlent

Icelandair sagt í­huga að semja við nýtt stéttar­fé­lag flug­freyja

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Stjórnendur Icelandair reyna nú hvað þeir geta til að forða félaginu frá þroti.
Stjórnendur Icelandair reyna nú hvað þeir geta til að forða félaginu frá þroti. Vísir/vilhelm

Komið hefur til tals að setja á laggirnar nýtt stéttarfélag flugfreyja, hvers félagsmenn væru flugfreyjur sem ekki styðja stefnu samninganefndar Flugfreyjufélags Íslands (FFÍ). Þetta hefur Morgunblaðið eftir „áreiðanlegum heimildum“ sínum í dag. Þá íhugar Icelandair nú að láta reyna á kjarasamningsákvæði fyrir félagsdómi, þannig að hægt sé að ráða flugfreyjur til félagsins sem standa utan FFÍ. Þetta herma heimildir Markaðarins í Fréttablaðinu í morgun.

Viðræður í kjaradeilu Icelandair og FFÍ eru nú á afar viðkvæmu stigi, samkvæmt upplýsingum fréttastofu. Samninganefnd Icelandair hefur farið fram á aukið vinnuframlag fyrir sömu laun, sem FFÍ lítur á sem verulega kjaraskerðingu.

Heimildir Morgunblaðsins herma nú að vel komi til greina innan Icelandair að semja við nýtt félag flugfreyja, náist ekki samningar við FFÍ. Flugfélagið vilji þann kost frekar en að fá sjálfstæða verktaka til vinnu.

Guðlaug Líney Jóhannsdóttir, starfandi formaður FFÍ.Vísir/Arnar

Þá greinir Fréttablaðið frá því í morgun, einnig samkvæmt heimildum, að Icelandair líti til þess að láta reyna á ákvæði um FFÍ fyrir félagsdómi, náist ekki samningar við félagið. Þannig yrði unnt að ráða flugfreyjur sem standa utan FFÍ. Icelandair gat ekki tjáð sig um málið við Markaðinn.

Icelandair rær nú lífróður vegna faraldurs kórónuveiru, sem lamað hefur starfsemi félagsins. Bogi Nils Bogason forstjóri Icelandair hefur sagt að nauðsynlegt sé að semja við flugstéttir hjá félaginu svo unnt verði að forða því frá þroti. Þegar hefur verið samið við flugvirkja og flugmenn en ekki flugfreyjur.

Boðað hefur verið til fundar milli samninganefnda FFÍ og Icelandair nú klukkan 8:30. Fundurinn mun fara fram í húsakynnum ríkissáttasemjara í Karphúsinu í Borgartúni.

Fundi nefndanna sem átti að hefjast klukkan 17 í gær var frestað skömmu áður en að áætlað var að hann hæfist. Samninganefndirnar funduðu stíft í fyrradag og lauk ellefu klukkustunda viðræðum þeirra án samkomulags klukkan eitt um nótt.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×