Körfubolti

Stólarnir áfram í toppslagnum: „Körfubolti er lífið hérna“

Sindri Sverrisson skrifar
Ingólfur Jón Geirsson fór yfir stöðuna með Kjartani Atla Kjartanssyni í Sportinu í dag.
Ingólfur Jón Geirsson fór yfir stöðuna með Kjartani Atla Kjartanssyni í Sportinu í dag. MYND/STÖÐ 2 SPORT

„Við ætlum ekki að fara að fjárfesta okkur í kaf, en við ætlum að halda áfram að vera með í slagnum,“ segir Ingólfur Jón Geirsson, formaður körfuknattleiksdeildar Tindastóls.

Tindastóll krækti í risastóran bita í þessari viku þegar félagið fékk Nikolas Tomsick frá deildarmeisturum Stjörnunnar. Sauðkrækingar virðast því ekki ætla að slá slöku við þrátt fyrir fjárhagslegar afleiðingar kórónuveirufaraldursins, en þeir hafa haft á einu af bestu liðum Domino‘s-deildarinnar að skipa mörg síðustu ár.

„Að sjálfsögðu er töluverð óvissa um hvað verður. Við höfum verið með mjög stóran og góðan hóp af styrktaraðilum. Hvort að allir geti haldið áfram á fullri ferð vitum við ekkert um eins og staðan er í dag, en þetta hefur gengið upp hjá okkur hingað til að mestu leyti. Okkur vantaði auðvitað úrslitakeppnina núna en að öðru leyti hefur reksturinn gengið upp hjá okkur,“ sagði Ingólfur í Sportinu í dag.

Líkt og aðrir körfuboltaáhugamenn grætur Ingólfur það að ekki skyldi nein úrslitakeppni fara fram í vor. Hann segir það sjást á Skagfirðingum hve sárt þeir sakni körfunnar í samkomubanni:

„Körfubolti er lífið hérna. Það fylgjast allir með körfuboltanum hérna. Það er rosalega stór hópur barna og unglinga í körfuboltanum, og það er hálfgerð depurð í mörgum hérna því það er ekki körfubolti eins og er. Okkur vantar körfuboltann okkar.“

Klippa: Sportið í dag - Formaður Tindastóls um fjármálin

Sportið í dag er á dagskrá á Stöð 2 Sport alla virka daga klukkan 15.00. Upptökur af fyrri þáttum má nálgast á sjónvarpsvef Stöðvar 2. Stöð 2 Sport er hluti af Sportpakkanum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×