Atvinnulíf

Áhrif atvinnuleysis á kynin og góð ráð fyrir pör

Rakel Sveinsdóttir skrifar
Atvinnuleysi getur lagst þungt á fjölskyldur.
Atvinnuleysi getur lagst þungt á fjölskyldur. Vísir/Getty

Að hafa áhyggjur af peningum er eitt þeirra atriða sem fólk hefur hvað mestar áhyggjur af og í flestum tilfellum taka fjárhagsáhyggjur við í kjölfar atvinnumissis. Nokkuð hefur verið rannsakað hvort munur sé á milli kynja með hvernig fólk upplifir atvinnuleysi og virðast niðurstöður vera nokkuð mismunandi. 

Í kjölfar bankahruns sýndu mælingar í Bretlandi til dæmis að andleg líðan karla mældist verri en kvenna í atvinnuleysi. Konur voru hins vegar líklegri til að sjá tækifæri í atvinnuleysi, til dæmis meiri samveru með börnum. Það átti þó eingöngu við ef konurnar voru ekki að upplifa miklar fjárhagsáhyggjur samhliða atvinnuleysi.

Rannsókn sem gerð var í Svíþjóð og Írlandi sýndi hins vegar nokkuð aðra niðurstöðu þar sem atvinnuþátttaka kynja spilaði meðal annars stórt hlutverk. Í Svíþjóð er atvinnuþátttaka kvenna há og þar sýndu niðurstöður að atvinnuleysi hafði jafn neikvæð áhrif á andlega líðan kvenna og karla. Á Írlandi er atvinnuþátttaka kvenna lægri en í Svíþjóð og þar mældist andleg líðan karlmanna verri en andleg líðan kvenna.

Í Bandaríkjunum var síðan gerð enn ein rannsóknin og hún sýndi að atvinnuleysi hafði ekki aðeins áhrif á andlega líðan karla og kvenna heldur getur atvinnuleysi aukið líkurnar á skilnuðum.

Í umfjöllun CBS News eru tekin saman nokkur góð ráð fyrir hjón/pör til að styðjast við þegar atvinnuleysi er til staðar.

Ræðið opinskátt um atvinnuleysið

Eitt ráðið er að þora að ræða atvinnuleysið í stað þess að það hangi yfir öllu eins og stóri fíllinn í stofunni. Margir hafa upplifað atvinnuleysi og atvinnuleysi þarf ekki að vera neitt feimnismál. Ef hjón geta rætt opinskátt við hvort annað og aðra um atvinnuleysið, þá hjálpar það.

Yfirfarið peningamálin saman

Peningar virðast einn algengasti streituvaldur parsambanda og það á við í góðæri sem og á erfiðum tímum. Eitt mikilvægt atriði fyrir hjón/par að gera þegar atvinnuleysi blasir við er að ræða peningamálin og taka sér góðan tíma í það. Yfirfara forgangsmál og mögulegan niðurskurð.

Samhliða þessu er pörum bent á að ræða um það hvað í lífinu það er sem skiptir mestu máli: Eru það veraldlegir hlutir, heilsan, hamingjan o.s.frv.

Fagnið öllum áföngum

Á meðan atvinnuleysið varir gætu opnast tækifæri fyrir vinnu, óháð því hvort þau nái öll fram að ganga. Áfangi gæti til dæmis falist í að heyra af vinnu eða verkefni, fá góðar móttökur við ferilskrá, fara í viðtal o.s.frv.

Að hrósa, peppa eða horfa björtum augum á hvert það tækifæri sem kann að koma upp skiptir gerir báðum aðilum gott því þótt hlutirnir gangi ekki upp strax eru þetta vísbendingar um að auðvitað mun núverandi ástand ekki vara að eilífu.

Haldið í ykkar rútínu

Þá er pörum bent á að reyna að halda áfram að gera saman ánægjulega hluti þótt atvinnuleysi sé til staðar. Mögulega breytist eitthvað, til dæmis að elda góðan mat frekar en að fara út að borða eða leigja góða mynd í stað þess að fara í bíó. En hverjar svo sem samverustundirnar voru fyrir atvinnuleysi er mikilvægt að njóta samvista áfram og halda í rútínuna eins og hægt er.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×