Erlent

Yfir tvær milljónir smita staðfestar á heimsvísu

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Frá New York í Bandaríkjunum. Meira en tíu prósent staðfestra tilfella á heimsvísu hefur greinst þar.
Frá New York í Bandaríkjunum. Meira en tíu prósent staðfestra tilfella á heimsvísu hefur greinst þar. Vísir/EPA

Staðfest tilfelli kórónuveirunnar sem valdið getur sjúkdómnum Covid-19 eru nú fleiri en tvær milljónir á heimsvísu. Flest eru smitin í Bandaríkjunum. Þetta kemur fram á vefsíðu á vegum Johns Hopkins háskóla í Bandaríkjunum.

Staðfest smit í Bandaríkjunum eru nú tæplega 633 þúsund. Á eftir koma Spánn með 177 þúsund tilfelli, Ítalía með 165 þúsund og Þýskaland með 133 þúsund. Hér er aðeins um að ræða smit sem prófað hefur verið fyrir og því má áætla að raunverulegur fjöldi þeirra sem smitast hefur sé talsvert meiri, þar sem íbúar margra landa þar sem faraldurinn geisar hafa ekki greiðan aðgang að prófum fyrir veirunni.

Þá hafa tæplega 134 þúsund látið lífið, svo vitað sé. Flest dauðsföllin hafa orðið í Bandaríkjunum, eða rúmlega 28 þúsund. Á Ítalíu hafa tæplega 22 þúsund látist og tæplega 19 þúsund á Spáni.

Mikið hefur mætt á New York-ríki í Bandaríkjunum en þar hafa 214 þúsund tilfelli veirunnar verið staðfest og ríflega 11 þúsund látið lífið. Þannig hafa meira en tíu prósent staðfestra tilfella greinst í ríkinu.

Síðastliðinn sólarhring hafa 7.774 látið lífið af völdum Covid-19, en aldrei hafa fleiri látist á einum sólarhring af völdum sjúkdómsins.

Á Íslandi hafa 1727 greinst með veiruna og átta látist.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×