Fótbolti

KSÍ fundar með almannavörnum í vikunni: Margar sviðsmyndir á borðinu

Anton Ingi Leifsson skrifar
Kópavogsliðin Breiðablik og HK bíða, eins og öll önnur lið landsins, átekta eftir skilaboðum frá KSÍ.
Kópavogsliðin Breiðablik og HK bíða, eins og öll önnur lið landsins, átekta eftir skilaboðum frá KSÍ. vísir/daníel

Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, greindi frá því í dag á 42. upplýsingafundi almannavarna vegna kórónuveirunnar að aflétting aðgerða verða gerð í skrefum. Klarta Bjartmartz, framkvæmdarstjóri KSÍ, segir að sambandið muni funda með almannavörnum í vikunni um knattspyrnutímabilið 2020.

Þórólfur sagði í dag að þegar samkomubanninu lyki þann 4. maí þá þyrfti að létta aðgerðum í skrefum. Það yrði gert á þriggja til fjögurra vikna fresti og það yrði þannig fram á sumar. Einnig væri líkur á því að takmarkanir verði á stórum samkomum í sumar.

Sóttvarnalæknir bætti því einnig við að íþyngjandi aðgerðir verði líklega afléttar með sumrinu til að mynda fjarlægð milli einstaklinga það sem eftir er ársins. Það vakti athygli knattspyrnuáhugafólks hér á landi.

Pepsi Max-deild karla átti að hefjast 22. apríl og Pepsi Max-deild kvenna átta dögum síðar en deildunum var frestað um óákveðinn tíma sem og öllum kappleikjum hér á landi. Klara Bjartmarz, framkvæmdarstjóri KSÍ, sagði í samtali við Vísi í dag að sambandið eigi fund með almannavörnum í næstu viku.

Þar muni sambandið ræða hvenær liðin geta byrjað að æfa, mögulega með einhverjum takmörkunum, og einnig hvort að hægt verði að setja Íslandsmótið af stað. Það gæti verið að það þurfti að vera með einhverjum fjöldatakmörkunum í upphafi móts. Hún segir að sambandið hafi undirbúið sig vel undir fundinn en það muni meira skýrast þegar honum er lokið í komandi viku.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×