Innlent

Gætu bannað komur skemmtiferðaskipa eða takmarkað komu farþega

Kjartan Kjartansson skrifar
Skemmtiferðaskipið Celebrity Reflection í Sundahöfn þegar betur áraði í heiminum.
Skemmtiferðaskipið Celebrity Reflection í Sundahöfn þegar betur áraði í heiminum. Vísir/Vilhelm

Til skoðunar er hvort að banna eigi komur skemmtiferðaskipa til landsins eða setja takmarkanir á hvaða farþegar geta komið í land til að fyrirbyggja að kórónuveirusmit berist hingað til lands með þeim, að sögn Þórólfs Guðnasonar, sóttvarnalæknis.

Ferðamennska til Íslands hefur nær stöðvast vegna kórónuveiruheimsfaraldursins og viðbragða ríkja heims til þess að hefta útbreiðslu hans. Millilandaflug liggur að mestu leyti niðri en 163 skemmtiferðaskip eru enn væntanleg til landsins þrátt fyrir að á þriðja tug annarra hafi afbókað sig.

Í Færeyjum, þar sem faraldurinn er ekki lengur talinn í virkri útbreiðslu, hafa yfirvöld sett alla komufarþega í sóttkví, innlenda sem erlenda. Þórólfur var spurður að því á daglegum upplýsingafundi almannavarna hvort að hér stæði til að fara þessa „færeysku leið“ með skemmtiferðaskipin.

„Við erum að hugsa um að fara íslensku leiðina á þetta. Hún er í skoðun og það eru bara ákveðnar aðgerðir,“ sagði Þórólfur.

Ekki væru margar útfærslur um hvernig eigi að forðast smit frá skemmtiferðaskipum í boði. Vali stæði á milli þess að banna komu skipanna til landsins, banna farþegum að koma í land eða setja einhvers konar takmarkanir á því hverjir geta komið í land.

„Það eru ekki margir aðrir möguleikar og við erum bara með allt þetta í skoðun,“ sagði Þórólfur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×