Erlent

Neita að draga morð­á­kæru á hendur rúss­nesku systrunum til baka

Atli Ísleifsson skrifar
Angelina Khachaturyan mætir fyrir dómara  í Moskvu í september 2018.
Angelina Khachaturyan mætir fyrir dómara  í Moskvu í september 2018. Getty

Rannsakendur rússneskra lögregluyfirvalda hafa neitað að draga morðákæru á hendur þremur rússneskum systrum, sem grunaðar eru um að hafa drepið ofbeldisfullan föður sinn, til baka. Óvissa er um framhald málsins sem vakið hefur mikla athygli í landinu.

Saksóknaraembættið komst að þeirri niðurstöðu fyrr á árinu að Khachaturyan-systurnar hafi þurft að þola langvarandi líkamlegt og kynferðislegt ofbaldi af hálfu föður síns. Því væri rétt að líta á drápið sem „nauðsynlega sjálfsvörn“.

Almennt hafði verið litið á að með því væri málinu líklegast lokið, en einn verjandi kvennanna segir nú að rannsakendur hafi hafnað afstöðu saksóknara.

Beittu hníf, hamri og piparúða

Khachaturyan-systurnar, þær Maria, Angelina og Krestina, stungu 57 ára gamlan föður sinn til bana í júlí 2018 þar sem hann lá sofandi, en systurnar voru þá sautján, átján og nítján ára gamlar.

Sjá einnig:Gætu fellt niður morð­á­kæru á hendur rúss­neskum systrum

Beittu þær hnífi, hamri og piparúða í árásinni, en faðirinn hafði þá beitt systurnar ofbeldi og misnotað þær kynferðislega um árabil. Sögðu þær einnig að hann hafi oft haldið þeim föngnum á heimilinu í langan tíma í senn.

Málið hefur vakið mikla athygli í Rússlandi síðustu ár.Getty

Gætu átt yfir höfðu sér tuttugu ára dóm

Málið hefur vakið mikla athygli í Rússlandi og beint sjónum að stöðu kvenna og hvaða úrræði væru í boði fyrir konur sem verða fyrir ofbeldi af hálfu fjölskyldumeðlims. Vegna málsins hefur mikið verið þrýst á að herða viðurlög vegna heimilsofbeldis í landinu.

Tvær elstu systurnar gætu átt yfir höfði sér allt að tuttugu ára fangelsi vegna drápsins, fari svo að málið fari fyrir dóm.

Systurnar dvelja nú á ólíkum stöðum, eru frjálsar ferða sinna, en þeim er hins vegar meinað að ræða hver við aðra, við fjölmiðla eða aðra sem málinu tengjast.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×