Erlent

Um 5% fólks á Spáni gætu hafa smitast af veirunni

Kjartan Kjartansson skrifar
Sjálfboðaliðar dreifa andlitsgrímum og matvælum til bágstaddra í San Antón-kirkjunni í Madrid. Hlutfall smitaðra í borginni er eitt það hæsta á Spáni.
Sjálfboðaliðar dreifa andlitsgrímum og matvælum til bágstaddra í San Antón-kirkjunni í Madrid. Hlutfall smitaðra í borginni er eitt það hæsta á Spáni. Vísir/EPA

Mótefnamæling á Spáni bendir til þess að allt að 5% íbúa þar hafi smitast af nýju afbrigði kórónuveiru sem veldur Covid-19-sjúkdómnum. Það eru um tífalt fleiri en fjöldi staðfestra smita í landinu. Heilbrigðisráðherra Spána segir mælinguna sýna að ekkert hjarðónæmi sé til staðar.

Um 2,3 milljónir manna gætu hafa smitast af veirunni ef marka má mótefnamælinguna. Samkvæmt opinberum tölum hafa tæplega 230.000 manns greinst smitaðir af veirunni. Um 60.000 manns voru skimaðir fyrir mótefnum í rannsókn yfirvalda, að sögn Reuters-fréttastofunnar.

Veiran virtist útbreiddust um mitt landið. Í Madrid bendir mótefnamælingin til þess að um 11,3% íbúa hafi smitast. Hæsta hlutfallið greindist í borgunum Soria og Cuenca í nágrannahéruðum Madridar, 14,2 og 13,5%.

Þær niðurstöður virðast renna stoðum undir stefnu spænskra stjórnvalda sem hafa létt á takmörkunum mismikið eftir svæðum á grundvelli útbreiðslu veirunnar á hverjum stað, að sögn Salvadors Illa, heilbrigðisráðherra. Um helmingur landsmanna nýtur nú meira frjálsræðis frá og með síðasta mánudegi en útgöngubannið á Spáni hefur verið eitt það strangasta í Evrópu.

Rúmlega 27.100 manns hafa nú látið lífið í faraldrinum á Spáni. Samkvæmt tölfræði Johns Hopkins-háskóla í Bandaríkjunum er Spánn í fimmta sæti yfir fjölda dauðsfalla í heiminum á eftir Bandaríkjunum, Bretlandi, Ítalíu og Frakklandi.

Stjórnvöld ætla að halda landamærum Spánar lokuðum fyrir flestum erlendum ferðamönnum fram í júlí. Landamærunum að Frakklandi og Portúgal hefur verið lokað frá því að neyðarástandi var lýst yfir vegna faraldursins um miðjan mars. Erlendir ferðalangar þurfa að fara í tveggja vikna sóttkví við komuna til landsins sem hefur í reynd stöðvað flug- og skipasamgöngur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×