Körfubolti

Íslandsmeistarar dagsins: Galdrakona frá Ísrael og langþráður titill eftir fullkomið tímabil

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Guðbjörg Norðfjörð og Hanna B. Kjartansdóttir hlaupa sigurhringinn með Íslandsbikarinn á síðum Dags og á litlu myndinni má sjá hina mögnuðu Limor Mizrachi.
Guðbjörg Norðfjörð og Hanna B. Kjartansdóttir hlaupa sigurhringinn með Íslandsbikarinn á síðum Dags og á litlu myndinni má sjá hina mögnuðu Limor Mizrachi. Skjámynd/Dagur

Þessa dagana eru úrslitin vanalega að ráðast í úrslitakeppnum Domino´s og Olís deildanna í körfubolta og handbolta. Kórónuveiran hefur komið í veg fyrir það gerist í ár en Vísir ætlar í staðinn að rifja upp Íslandsmeistara dagsins næstu vikurnar.

Frá því að úrslitakeppnirnar voru fyrst teknar upp í deildunum fjórum, Olís karla og kvenna og Domino´s karla og kvenna, hefur eitt lið orðið Íslandsmeistari 3. apríl.

Íslandsmeistarar dagsins eru kvennalið KR í körfubolta sem vann ellefta Íslandsmeistaratitil félagsins 3. apríl 1999.

Þegar tímabilið 1998-99 rann upp hafði KR-liðið tapað fimm úrslitaeinvígum á árunum 1993 til 1998 og kvennalið KR hafði enn fremur ekki orðið Íslandsmeistari síðan 1987.

Forsíðan á íþróttakálfi DV eftis sigur KR liðsins vorið 1999.Skjámynd/DV

Unnu alla 28 leiki sína á tímabilinu

Tímabilið 1998-99 var hins vegar fullkomið af öllu leiti því KR-liðið vann alla 25 leiki sína í deild og úrslitakeppni og varð einnig bikarmeistari. Liðið vann alla 28 leiki sína á tímabilinu.

Það sem gerði útslagið var koma hinnar ísraelsku Limor Mizrachi en þessi galdrakona gerði KR-konur algjörlega ósigrandi. Limor Mizrachi var með 23 stig, 9 fráköst, 10 stoðsendingar og 6 stolna bolta í bikarúrslitaleiknum og í úrslitaeinvíginu á móti Keflavík var hún með 28,7 stig, 7,0 fráköst, 7,3 stoðsendingar og 5,3 stolna bolta að meðaltali í leik. Boltaleiknin og leiðtogahæfileikarnir var eitthvað sem enginn hafði séð í íslensku kvennakörfunni fram að því.

Þetta KR-lið kemur sterklega til greina sem besta lið alla ríma en ellefu leikmenn liðsins höfðu spilað með landsliðinu og í því voru á þeim tíma fjórar af sjö leikjahæstu landsliðskonum sögunnar.

KR-konur fagna sigrinum á síðum DV.Skjámynd/DV

Lánaði númerið sitt en tók um leið loforð af Limor

Guðbjörg Norðfjörð, fyrirliði KR, var búin að spila í efstu deild í þrettán ár en varð nú Íslandsmeistari í fyrsta sinn. Guðbjörg hafði alltaf spilað í treyju númer fjórtán en lánaði Limor Mizrachi hana á þessu tímabili en tók um leið af henni loforð að KR yrði Íslandsmeistari.

„Ég hef nokkrum sinnum lent í þeirri aðstöðu að tapa úrslitaleikjum eins og stelpurnar í KR, og því var mér í mun að hjálpa liðinu að verða Íslandsmeistari. Það tókst, enda lögðust allir leikmenn á eitt að ná þessum árangri,“ sagði Limor Mizrachi við Morgunblaðið.

„Við höfum haft góðan mannskap síðustu árin en ekki náð almennilega saman fyrr en nú. Ísraelski leikmaðurinn Limor Mizrachi hafði góð áhrif á liðsheildina og stóð sig einstaklega vel í úrslitakeppnin. Í þriðja leiknum hafði hún mikla yfirburði yfir aðra leikmenn og skoraði 40 stig. Það er frábært að fá tækifæri til þess að spila með jafn góðum leikmanni og Limor er,“ sagði Guðbjörg Norðfjörð við Morgunblaðið.

Limor Mizrachi kom ekki aftur til íslands en varð meistari í Ísrael, Póllandi og Króatíu næstu ár á eftir.

KR Íslandsmeistari 1999

  • 1. deild kvenna í körfubolta
  • Dagssetning: 3.apríl
  • Staður: Hagaskóli í Reykjavík
  • Þjálfari: Óskar Kristjánsson
  • Fyrirliði: Guðbjörg Norðfjörð
  • Árangur: 20 sigrar og 0 töp í 20 deildarleikjum
  • 5 sigrar og 0 töp í 5 leikjum í úrslitakeppni
  • 100 prósent sigurhlutfall (25-0)

Atkvæðamestar í lokaúrslitunum:

  • Limor Mizrachi 86 stig (28,7 í leik)
  • Guðbjörg Norðfjörð 30 stig (10,0)
  • Hanna Björg Kjartansdóttir 28 stig (9,3)
  • Kristín Björk Jónsdóttir 27 stig (9,0)
  • Helga Þorvaldsdóttir 27 stig (9,0)
  • Linda Stefánsdóttir 13 stig (4,3)

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×