Íslenski boltinn

Bergsveinn: Er miklu meiri leiðtogi en fótboltamaður

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Bergsveinn Ólafsson
Bergsveinn Ólafsson Vísir/Skjáskot

Fyrrum fótboltamaðurinn Bergsveinn Ólafsson tilkynnti ákvörðun sína um að hætta í fótbolta opinberlega í gær en hann hefur undanfarin ár leikið fyrir uppeldisfélag sitt, Fjölni.

Óhætt er að segja að tímasetningin vekji mikla undrun en aðeins er rúmur mánuður þar til flautað verður til leiks í Pepsi-Max deildinni þar sem Fjölnismenn eru nýliðar en Bergsveinn var fyrirliði liðsins sem hafnaði í 2.sæti Inkasso deildarinnar á síðustu leiktíð.

Bergsveinn er á tuttugasta og áttunda aldursári og hefur leikið stærstan hluta ferilsins með Fjölni en lék með FH um tíma og hampaði Íslandsmeistaratitli með Hafnfirðingum árið 2016.

Svava Kristín Grétarsdóttir ræddi við Bergsvein um ákvörðunina í dag.

Klippa: Bergsveinn Ólafs: Er meiri leiðtogi en fótboltamaður

„Tilfinningin er búin að blunda í mér lengi en ég hef kannski ekki kafað ofan í þetta. Þetta er erfið ákvörðun. Mér þykir vænt um strákana í liðinu, Fjölni, þjálfarana og alla sem starfa í kringum þetta,“

„Ástríðan er farin úr fótboltanum. Áhugi minn liggur ekki þar. Áhuginn liggur á öðrum sviðum í lífinu; í því sem ég er búinn að vera að mennta mig í. Það er þjálfunarsálfræði, fyrirlestrar, námskeið og fleira. Ég finn mig miklu betur þar, ég er miklu meiri leiðtogi en fótboltamaður,“ segir Bergsveinn.

Viðtalið við Bergsvein í heild sinni má sjá í spilaranum í fréttinni.


Tengdar fréttir

Bergsveinn: Erfiðasta sem ég hef gert í langan tíma

Bergsveinn Ólafsson, sem tilkynnti í dag að hann væri hættur í fótbolta, segir að tilfinningin að hætta í fótbolta hafi blundað í honum lengi og ákvörðunin hafi ekki verið tekið í neinu flýti.

Bergsveinn hættur í fótbolta

Bergsveinn Ólafsson, fyrirliði Fjölnis, hefur ákveðið að leggja skóna á hilluna. Hann staðfesti þetta nú undir kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×