Fréttir

Íslenskir aðalverktakar buðu lægst í breikkun hringvegarins um Ölfus

Kristján Már Unnarsson skrifar

Íslenskir aðalverktakar áttu lægsta boð í breikkun sjö kílómetra kafla Suðurlandsvegar milli Selfoss og Hveragerðis. Tilboðsfrestur í þetta stærsta útboðsverk Vegagerðarinnar á þessu ári rann út í dag.

Íslenskir aðalverktakar buðust til að vinna verkið fyrir 5.069 milljónir króna, sem var 176 milljónum króna undir áætluðum verktakakostnaði upp á 5.245 milljónir króna. Tilboð ÍAV var þannig 96,6 prósent af áætlun.

Sami verktaki vann fyrsta áfangann á síðasta ári, tveggja og hálfs kílómetra kafla austan Hveragerðis, milli Varmár og Gljúfurholtsár, ásamt tengivegum, en hann var opnaður umferð í haust.

Sjá hér: Öryggi eykst í Ölfusi þegar fyrsta áfanga lýkur í haust

Tilboð voru opnuð hjá Vegagerðinni í dag.

Tvö önnur boð bárust en þau reyndust bæði yfir kostnaðaráætlun. Suðurverk og Loftorka buðu saman 5.712 milljónir króna, eða 108,9 prósent af áætluðum kostnaði. Ístak átti hæsta boð, upp á 5.869 milljónir króna, eða 111,9 prósent af áætluðum kostnaði. Boð Ístaks var þannig 800 milljónum króna hærra en lægsta boð og boð Suðurverks og Loftorku var 643 milljónum hærra.

Leggja á 2+1 veg með aðskildum akstursstefnum auk tengivega um sveitina. Framkvæmdir eiga að fara á fullt í vor og ljúka eftir þrjú ár en verklok eru í september 2023.

Í frétt Stöðvar 2 í janúar var verkið útskýrt nánar með grafískum myndum frá Vegagerðinni:




Fleiri fréttir

Sjá meira


×