Innlent

120 milljónir í endur­gerð á fimm opnum leik­svæðum í borginni

Atli Ísleifsson skrifar
Leiksvæðið við Bogahlíð eins og það lítur út í dag.
Leiksvæðið við Bogahlíð eins og það lítur út í dag. Reykjavíkurborg

Reykjavíkurborg hyggst endurgera opin leiksvæði á fimm stöðum í borginni í sumar, þar sem áætlaður kostnaður er 120 milljónir króna.

Í tilkynningu frá borginni segir að leiksvæðin sem um ræðir séu við Bogahlíð, Bústaðaveg, Seiðakvísl, Snæland og Öldugötu. Er áætlað að útboð verði opnuð í maí, að framkvæmdir hefjist í lok mánaðar og að þær standi fram í október.

„Endurgerðin felur í sér landmótun, endurnýjun gróðurbeða, leiktækja og yfirborðsefna eftir þörfum. Áhersla er á öryggismál eins og fallvarnarefni og bætta lýsingu og aðgengi fyrir alla.

Forgangsraðað með ástandsskoðun

Við endurgerðina er reynt að horfa til sem flestra hópa og gætt að aðgengi inn á svæðin. Þessi leiksvæði sem urðu fyrir valinu í ár eru komin á tíma en búið er að forgangsraða leiksvæðunum með ástandsskoðun. Það sem hægt er að nýta verður nýtt áfram á meðan öðru er skipt út.

Þess er gætt að endurnýja opin leiksvæði um alla borg. Framkvæmdum er forgangsraðað innan hvers hverfis fyrir sig þannig að unnið sé þvert á borgina. Opin leiksvæði eru önnur leiksvæði en þau sem eru við grunnskóla og leikskóla,“ segir í tilkynningunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×