Íslenski boltinn

Pepsi Max deildin byrjar 13. júní og endar líklega 31. október

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Pálmi Rafn Pálmason tekur víti fyrir KR á móti Stjörnunni í fyrrasumar.
Pálmi Rafn Pálmason tekur víti fyrir KR á móti Stjörnunni í fyrrasumar. Vísir/Daníel

KSÍ hefur birt nýja leikjadagskrá fyrir Pepsi Max deild karla og þar kemur fram að lokaumferðin mun fara fram á síðasta degi októbermánaðar.

Knattspyrnusamband Íslands hélt í dag upplýsingafund fyrir fjölmiðla í höfuðstöðvum KSÍ þar sem farið var yfir Íslandsmótið í knattspyrnu sem er fram undan.

Á fundum var kynnt nýtt leikjaplan Pepsi Max deildar karla en hægt er að skoða það inn á vef sambandsins. KSÍ hefur birt nýtt leikjaplan en það verður þó að taka það fram að það er enn í vinnslu og gæti því tekið einhverjum breytingum.

Leikjaplanið eftir 1. ágúst er enn í mikilli óvissu því ekki er vitað hvort eða hvenær Evrópukeppnirnar koma inn. Leikir eftir 1. ágúst eiga því eftir að breytast.

Fyrsta umferðin fer fram 13. til 15. júní en 13. júní fer bara fram leikur Vals og KR. 13. júní er laugardagur og verður leikurinn klukkan 20.00. Umferðin klárast svo með fjórum leikjum á sunnudeginum og einum leik á mánudegi.

Samkvæmt nýju leikjaplani þá fara fara þrjár umferðir fram í júní, sex umferðir fram í júlí, sex umferðir fram í ágúst, þrjár umferðir fara fram í september og loks fara fjórar síðustu umferðirnar fram í október.

Leikirnir í fyrstu umferðinni:

  • Valur - KR (Laugardagur 13. júní, klukkan: 20:00)
  • HK - FH (Sunnudagur 14. júní, klukkan:13:30)
  • ÍA - KA (Sunnudagur 14. júní, klukkan:15:45)
  • Víkingur R. - Fjölnir (Sunnudagur 14. júní, klukkan:18:00)
  • Breiðablik - Grótta (Sunnudagur 14. júní, klukkan:20:15)
  • Stjarnan - Fylkir (Mánudagur 15. júní, klukkan: 19:15)



Fleiri fréttir

Sjá meira


×