Erlent

Myndir náðust af villtum Síberíu­tígris­dýrum

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar

Það er ekki á hverjum degi sem myndir nást af villtum Síberíutígrisdýrum. Rússneskir þjóðgarðsverðir birtu hins vegar á dögunum myndirnar sem sjá má í spilaranum að ofan.

Tígrishvolparnir þrír voru við leik þegar falin myndavél festi þá á filmu þann 2. nóvember síðastliðinn.

Þeir voru staddir í hinum tæplega þrjú þúsund ferkílómetra stóra hlébarðalandsþjóðgarði í Primorsky Krai austast í Rússlandi, en þjóðgarðsverðir uppgötvuðu myndefnið ekki fyrr en nýlega.

Hvolparnir voru væntanlega að bíða þess að móðir þeirra kæmi heim af veiðum en samkvæmt vísindamönnum sem hafa skoðað myndefnið eru hvolparnir um fjögurra mánaða gamlir. Á þeim aldri eru tígrisdýrin einmitt hvað leikglöðust.

Um fimm hundruð Síberíutígrisdýr eru til í dag og hefur sú tala haldist stöðug undanfarinn áratug vegna mikils verndunarátaks. Stofninn var nærri útdauður um aldamótin vegna veiðiþjófnaðar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×