Innlent

Ef gefa á dýr í jólagjöf þarfnast það undirbúnings og ábyrgðar

Berghildur Erla Bernharðsdóttir skrifar

Formaður dýraverndarsambands Íslands varar við því að fólk gefi dýr óvænt í jólagjöf. Slíkt þurfi að undirbúa vel. Dýrin séu skyni gæddar verur sem þurfi að taka ábyrgð á.

„Það hefur verið lenska að gefa dýr til fólks án þess að undirbúa það. Fólk á alltaf að vera meðvitað um það þegar það tekur að sér dýr að það er til þess tíma sem dýrið lifir,“ segir Hallgerður Hauksdóttir formaður Dýraverndarsambands Íslands.  

Hún segir til dæmis að ef gefa á barni dýr í jólagjöf þurfi að undirbúa það vel.

„Ekki pakka hundinum í jólapakka og geyma frammi einhvers staðar. Það þarf að undirbúa gjöfina þannig að hvolpurinn sé ekki hræddur í aðstæðunum. Það er betra að koma á óvart með að biðja annan að geyma hann og koma svo með hann. Hins vegar er ekki sniðugt að taka dýr og gefa sem óvænta gjöf,“ segir hún. 

Hallgerður segir að þó að um sé að ræða smádýr þurfi að huga vel að þörfum þeirra.

„Það er hætta á að þegar  smádýrin eru gefin sem tækifærisgjafir jafnvel börnum að þá fylgi ekki með sú umönnun sem er nauðsynleg fyrir dýrin. Dýr eru skyni gæddar verur, þau eru ekki hlutir og það þarf að huga vel að þörum þeirra og fullorðnir þurfa að taka þá ábyrgð að sér,“ segir Hallgerður.

Þórarinn Þór eigandi Dýraríkisins segir að starfsfólk upplýsi ávallt um þá ábyrgð sem því fylgir að fá sér dýr.

Þórarinn Þór eigandi Dýraríkisins segir að starfsfólk upplýsi ávallt um þá ábyrgð sem því fylgir.

„Það er þó nokkuð um það að fólk kemur hingað til að kaupa dýr og setja í jólapakkann. Við förum ítarlega í gegnum það með fólki hvaða ábyrgð fylgir því að taka að sér dýr,“ segir Þórarinn. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×