Viðskipti innlent

Svona leit bréfið til starfsmanna Ölgerðarinnar út

Andri Eysteinsson skrifar
Starfsmönnum voru boðnir þrír kostir.
Starfsmönnum voru boðnir þrír kostir. Vísir/Vilhelm
Starfsmenn Ölgerðarinnar stóðu frammi fyrir þremur kostum, ganga úr VR og í Eflingu, halda áfram að greiða í VR en vinna eftir kjarasamningi Eflingar, eða vera sagt upp frá og með síðustu mánaðamótum með þriggja mánaða uppsagnarfresti.

Þetta sýnir bréf sem þeim var afhent og fréttastofa hefur undir höndum. Bréfið má sjá neðst í fréttinni.

Beðnir um að haka við einn reit af þremur

Andri Þór Guðmundsson er forstjóri Ölgerðarinnar.
Í bréfinu segir að Ölgerðin segi upp ákvæði ráðningarsamnings starfsmanns sem kveður á um réttindi og skyldur. Nýtt ákvæði taki gildi 1.mars 2020 eftir þriggja mánaða uppsagnarfrest núgildandi ákvæðis.

Í nýja ákvæðinu segir: „Um réttindi og skyldur, s.s. uppsagnarfrestur, orlof, almennar launahækkanir og veikindagreiðslur, fer að öðru leyti skv. Kjarasamningi Eflingar og SA.“

Starfsmenn voru þá beðnir um að haka í einn af þremur reitum, sú málsgrein sem hakað yrði við gildi. 

Kostirnir þrír voru eftirfarandi:

1. Þrátt fyrir ofangreindan uppsagnarfrest ákvæðisins eru aðilar sammála um að ofangreindar breytingar taki gildi nú þegar (1.desember 2019).

2. Starfsmaður samþykkir ekki að breytingar taki gildi nú þegar og óskar eftir að vinna lögbundinn uppsagnarfrest skv. gildandi ákvæði áður en nýtt ákvæði tekur gildi.

3. Starfsmaður samþykkir ekki ofangreindar breytingar og lítur svo á að verið sé að segja upp ráðningarsamningnum í heild sinni með ofangreindum uppsagnarfresti. Mun starfsmaður þá ljúka störfum að uppsagnarfresti liðnum.

Í yfirlýsingu Ölgerðarinnar vegna fréttaflutnings af málefnum starfsfólks Ölgerðarinnar baðst Ölgerðin velvirðingar á því hafi starfsmenn upplifað samræmingaraðgerðir sem afarkosti. Unnið hafi verið að því að starfsmenn í sömu deildum njóti sömu réttinda og skyldna.

Bréfið sem á annan tug starfsmanna hjá Ölgerðinni voru beðnir um að skrifa undir. Þeir neituðu að skrifa undir.
Fréttin hefur verið uppfærð.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×