Innlent

Rauð veðurviðvörun á Ströndum og Norðurlandi vestra: „Veðrið stendur lengur og landshlutinn einangrast“

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar

Rauð veðurviðvörun tekur gildi á Ströndum og Norðurlandi vestra klukkan 17 á morgun og er í gildi til klukkan eitt aðra nótt.

Frá klukkan 7 í fyrramálið og til klukkan 17 er appelsínugul veðurviðvörun í gildi í þessum sama landshluta.

„Munurinn er kannski svolítið sá að veðrið stendur lengur og landshlutinn einangrast svolítið. Það er útlit fyrir að það verði það slæmt veður að það verði ekki hægt að koma fólki til aðstoðar ef eitthvað gerist,“ segir Elín Björk Jónasdóttir, veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands, aðspurð um muninn á appelsínugulri og rauðri viðvörun.

Sjá einnig:Óvissustigi lýst yfir og rauð veðurviðvörun í fyrsta sinn

Kerfið byggi á því að hugsa um samfélagsleg áhrif og ef þau eru orðin mjög mikil þá fer kerfið í rauða viðvörun.

„Það verður blindhríð þarna í mjög langan tíma og svo þennan ofsalega mikla vind og þessa ofsalega miklu ölduhæð. Þannig að þegar þetta leggst allt saman þá er þetta orðið mjög áhrifamikið veður. Fyrir þennan almenna borgara þá þýðir þetta bara að fólk á að halda sig heima,“ segir Elín Björk sem ráðleggur fólki á Ströndum og Norðurlandi vestra að fara ekki fet á morgun heldur halda sig alfarið heima við.

Ljóst er að samgöngur í landshlutanum munu lamast og þá hefur skólastarfi í grunnskólunum á Blönduósi, Hólmavík, Skagaströnd, í Árskóla, Húnavallaskóla og Grunnskóla Húnaþings vestra verið aflýst samkvæmt upplýsingum á vefsíðum skólanna.

„Það er í rauninni langmestur vindur þarna. Það er spá 32, 33 metrum á sekúndu alveg frá 17 til eitt eftir miðnætti og það er áberandi meira en í öðrum landshlutum,“ segir Elín Björk og bætir við að veðrinu fylgi líka mjög mikil ofankoma.

„Þetta gengur í þetta fárviðri eða ofsaveður snemma í fyrramálið á þessum slóðum þannig að fólk ætti bara ekki að fara fet og halda sig heima á meðan veðrið gengur yfir, en huga að eignum og munum í dag, passa að það sé ekkert sem geti farið af stað og tryggja það sem er hægt,“ segir Elín Björk.


Tengdar fréttir

Rauð veðurviðvörun í fyrsta sinn

Rauð veðurviðvörun mun taka gildi í fyrsta sinn hér á landi klukkan 17 á morgun og nær hún til Norðurlands vestra og Stranda.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×